Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga haldið á Akureyri

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga, hið 24. í röðinni, verður haldið á Akureyri dagana 29. september til 1. október nk. Landsþing sambandsins var síðast haldið á Akureyri í lok september 2006 og þá mættu til leiks rúmlega 150 fulltrúar sveitarfélaganna, ásamt formönnum og framkvæmdastjórum landshlutasamtaka sveitarfélaga.  

Sveitarstjórnarfólki hefur fækkað umtalsvert á undanförnum árum, samfara sameiningu sveitarfélaga. Árið 1990 voru kjörnir sveitarstjórnarmenn rúmlega 1.100, árið 2006 voru þeir um 530 og enn  hefur þeim fækkað. Landsþing hefur æðsta vald í málefnum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Landsþing kemur saman árlega, að jafnaði í mars eða apríl. Á því ári sem almennar sveitarstjórnarkosningar eru haldnar skal landsþing þó haldið í september eða október. Samband íslenskra sveitarfélaga vinnur að eflingu samstarfs íslenskra sveitarfélaga og að hvers konar hagsmunamálum þeirra. Verulegur hluti starfseminnar felst í hagsmunagæslu fyrir sveitarfélögin gagnvart ríkisvaldinu og öðrum innlendum og erlendum aðilum. Sambandið mótar stefnu sveitarfélaganna til einstakra mála og hefur því náin samskipti við ríkisstjórn og Alþingi.

Nýjast