Fundurinn verður settur kl. 10:00 laugardaginn 4. október í félagsheimil Karlakórs Akureyrar-Geysis í Lóni, Hrísalundi og verður fram haldið á sunnudag. Auður Lilja Erlingsdóttir fráfarandi formaður segir að þó fundurinn fari fram í skugga mikillar kreppu sé tvímælalaust hugur í fólki. „Ég þori ekki að lofa því að við finnum leið út úr því öngstræti sem íhaldið, undir forystu Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde, hefur leitt þjóðina. Ég er þó fullviss um að hefðum við eða fulltrúar úr okkar flokki fengið jafn langan tíma í sæti forsætisráðherra og Geir hefur fengið, þá værum við byrjuð á umfangsmiklum aðgerðum til þess að draga úr fallinu," segir Auður og bendir á þingmenn Vinstri grænna hafi varað við því lengi hvert stefndi og hvaða áhrif skattalækkanir, einkavæðingin og glórulausar stóriðjuframkvæmdir myndu hafa á efnahag þjóðarinnar. „Það hafa einnig verið lagðar fram vandaðar og ýtarlegar tillögur af þingmönnum flokksins, meðal annars að styrkja gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans sem nú hefur komið í ljós að er allt of lítill."
Auður Lilja segir að þrátt fyrir erfitt ástand í samfélaginu þessa daga verði einnig horft fram veginn. „Auk þess að ræða stjórnmálin þá munum við endurskoða stefnuyfirlýsingu okkar. Í henni setjum við fram hugmyndir að því framtíðarsamfélagi sem við viljum á Íslandi og leiðir til þess að koma þeim í framkvæmd," segir Auður Lilja. Hún segist kveðja Ung vinstri græn með ákveðnum söknuði en að hún hlakki jafnframt til þess að fylgjast með nýju fólki halda hugsjónum rótækrar félagshyggju, friðarboðskap, kvenfrelsi og umhverfisverndar á lofti. „Það hefur verið mikill uppgangur í starfinu hjá okkur undanfarin tvö ár og hefur mikið af hæfileikaríku og róttæku fólki gengið til liðs við okkur á þeim tíma. Ég treysti þeim fullkomlega til þess að halda áfram öflugu starfi í þágu betra samfélags," segir hún.