L-listinn vinnur stórsigur á Akur- eyri samkæmt skoðanakönnun

L-listinn, listi fólksins, vinnur stórsigur í bæjarstjórnarkosningunum á Akureyri á laugardag og fær fimm bæjarfulltrúa af ellefu, samkvæmt könnun Capacent Gallup fyrir Vikudag. Ekki þurfa að verða miklar breytingar til að L-listinn bæti við sig sjötta bæjarfulltrúanum og hreinum meirihluta. Öll hin framboðin fimm tapa fylgi nú frá síðustu könnun.  

L-listinn fær 39,3% fylgi en í sambærilegri könnun sem birtist í Vikudegi í síðustu viku, var L-listinn með 24,4% fylgi og þrjá bæjarfulltrúa. Í kosningunum 2006 fékk listinn tæplega 10% atkvæða og einn bæjarfulltrúa. Öll hin framboðin fimm tapa fylgi nú frá síðustu könnun, Vinstri grænir hlutfallslega mest, eða tæpum 5 prósentustigum. Sjálfstæðisflokkurinn fær 14,2%, samkvæmt þessari nýju könnun og tvo bæjarfulltrúa en önnur framboð fá einn bæjarfulltrúa hvert. Framsóknarflokkurinn fær 13% fylgi, Vinstri grænir 12,6%, Samfylkingin 11,2% og Bæjarlistinn 9,7%.

Samkvæmt þessari niðurstöðu gæti L-listinn  myndað meirihluta með hverju sem er af hinum framboðunum fimm. L-listinn hefur þannig möguleika á sex manna meirihluta með fjórum framboðum og sjö manna meirihluta með Sjálfstæðisflokki. Enn eru þó margir óákveðnir, eða neita að svara og það er því hörð barátta framundan þessar síðustu klukkustundir fram að kosningum. Könnunin var framkvæmd dagana 20.-26. maí sl.

Nánar er fjallað um könnunina í Vikudegi í dag og þar koma fram viðbrögð oddvitanna sex við þessari niðurstöðu.

Jafnframt var í könnun Capacent Gallup fyrir Vikudag spurt um afstöðu bæjarbúa til langningu Dalsbrautar. Þar kemur fram að meirihluti Akureyringa er hlynntur því að Dalsbraut verði lögð frá Þingvallastræti suður að Miðhúsabraut. Af þeim sem tóku afstöðu eru 63,2% svarenda algerlega, mjög eða frekar hlynntir lagningu Dalsbrautar en 16,2% algerlega, mjög eða frekar andvígir lagninu götunnar. Þá eru 20,6% hvorki með eða móti framkvæmdinni.

Þá er í blaðinu í dag einnig birt niðurstaða könnunar Capacent Gallup fyrir Vikudag um hvort ráða eigi pólitískan eða ópólitískan bæjarstjóra á næsta kjörtímabili en sú könnun var framkvæmd dagana 11.-16. maí sl. Þar kemur fram að mikill meirihluti Akureyringa vill að ráðinn verði ópólitískur bæjarstjóri á næsta kjörtímabili. Af þeim sem tóku afstöðu vildu 82,6% að ráðinn yrði ópólitískur bæjarstjóri en 17,4% vildu ráða pólitískan bæjarstjóra. Spurt var: Hvort kysir þú frekar að næsti bæjarstjóri á Akureyri væri pólitískur eða ópólitískur? Alls svöruðu 440 manns, 358 tóku afstöðu, þar af vildu 296 ráða ópólitískan bæjarstjóra en 82 tóku ekki afstöðu. Þegar þeir 62 sem vilja ráða pólitískan bæjarstjóra voru spurðir hvern af oddvitum framboðanna sex þeir vildu helst sjá sem bæjarstjóra, nefndu flestir Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, eða 24 og næst flestir Hermann Jón Tómasson, eða 13. Nánar í Vikudegi í dag.

Nýjast