Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 15,8% fylgi, fær tvo bæjarfulltrúa og missir tvo en flokkurinn fékk um 31% atkvæða í síðustu kosningum. Samfylkingin fær 13,4%, missir tvo bæjarfulltrúa og fær einn bæjarfulltrúa nú, samkvæmt könnuninni. Samfylkingin fékk 23% í kosningunum 2006. Vinstri grænir bæta við sig rúmu einu prósenti í könnuninni nú, miðað við síðustu kosningar, fá 17,4% og heldur flokkurinn sínum tveimur bæjarfulltrúum. Framsóknarflokkurinn bætir við sig tæplega tveimur prósentum, fær 16,8% samkvæmt könnuninni og tvo bæjarfulltrúa, bætir við sig einum. Bæjarlistinn, nýtt framboð á Akureyri, fær 12,3% samkvæmt könnuninni og einn bæjarfulltrúa.
Sérstaka athygli vekur í þessari könnun að vegna nokkuð jafnrar skiptingar milli framboðanna er óvissa um hvaðan síðustu fjórir fulltrúarnir í bæjarstjórn koma. Í könnun af þessu tagi eru alltaf einhver skekkjumörk og sé tekið tillit til þeirra þá eru það hvorki fleiri né færri en níu frambjóðendur sem könnunin segir að eigi möguleika á þessum fjórum bæjarfulltrúastólum. Nánar er fjallað um könnunina í Vikudegi í dag.