L-listinn samþykkir ekki sjö hæða viðbyggingu í miðbænum

Geir Kristinn Aðalsteinsson oddviti L-listans segir að fulltrúar listans geti ekki samþykkt að ráðist verði í að byggja 7 hæða viðbyggingu við gamla Hótel Akureyri, eins og hugmyndir hafa verið um. Málið hafi verið rætt á fundi með þeim fulltrúum L-listans sem stýra nefndum bæjarins og að þar hafi menn verið samhljóða um þá niðurstöðu. Þetta há bygging samrýmist ekki þeirri ásýnd sem þarna er í miðbænum.  

Eins og fram hefur komið í Vikudegi, ganga hugmyndir þeirra sem vilja hefja hótelrekstur í Hafnarstræti 98, út að endurbyggja gamla húsið í upprunalegri mynd en jafnframt að byggja viðbyggingu við það á reit austan hússins. Þeir telja að skilyrði fyrir rektsrarhæfri einingu sé að komast í 60-70 herbergi en það náist aðeins með tveimur hæðum til viðbótar á byggingarrétti austan gamla hússins. Til að það gangi eftir þurfi að breyta  núverandi deiliskipulagi svæðisins og viðbyggingin yrði þá tveimur hæðum hærri en veitingastaðurinn Strikið.

"Við höfum skoðað þetta mál frá öllum hliðum, heyrt í rekstraraðilum þarna í kring og á meðal þeirra er mikil andastaða við þetta háa byggingu. Við ætlum ekki að fara taka ákvöðrun í óþökk þeirra, það gengur ekki upp. Við viljum hins vegar róa að því öllum árum að koma verkefnum í gang sem skapa störf," sagði Geir Kristinn en L-listinn er með hreinan meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar.

Vikudagur leitaði einnig viðbragða hjá oddvitum annarra framboða í bæjarstjórn. Guðmundur Baldvin Guðmundsson bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins sagði að fljótt á litið finnist honum ástæða til að skoða þetta. Þessar hugmyndir hafi þó aðeins verið kynntar meirihlutanum og því sé erfitt að tjá sig frekar um þær. 

Andrea Hjálmsdóttir bæjarfulltrúi VG sagðist fagna því séu framkvæmdir að fara í gang við endurbyggingu Hafnarstrætis 98. Það yrði mikil andlitslyfting fyrir miðbæinn á Akureyri að húsið verði gert upp í upprunalegri mynd. "Varðandi viðbygginguna þá hef ég einungis séð afstöðumynd þá sem birtist í Vikudegi þar sem sjónarhornið er frá Hofi og upp í brekkuna og út frá því virðist hún vel gerleg. Til að geta lagt mat á skipulagsbreytingu sem þessa er ljóst að frekari upplýsingar og afstöðumyndir verða að liggja fyrir en eins og ég sagði lítur þetta út fyrir að vera framkvæmanlegt út frá þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir."

Hermann Jón Tómasson bæjarfulltrúi Samfylkingar tekur í sama streng varðandi endurbyggingu Hafnarstrætis 98. "Með sama hætti væri ekki amalegt að þetta verkefni færi af stað sem fyrst, byggingariðnaðurinn þarf sannarlega á því að halda. En sá galli er þarna á gjöf Njarðar að óskað er eftir breytingum á skipulagi þannig að reisa megi 6-7 hæða hús á baklóðinni. Sú ósk gengur gegn þeirri meginhugmynd að hús á miðbæjarsvæðinu verði að öllu jöfnu ekki hærri en 4-5 hæðir. Aðkoman að svo stóru hóteli á þessum stað hlýtur líka að vera áhyggjuefni. En ég vona engu að síður að rekstaraðilar og bæjaryfirvöld nái saman um þetta mál og að af þessum framkvæmdum geti orðið."

Ólafur Jónsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks sagðist ekki vita meira um þessar hugmyndir en það sem fram kom í Vikudegi, þær hafi ekki verið kynntar minnihlutanum. "Ég tel það aftur á móti ánægjulegt að fjárfestar séu að horfa  til uppbyggingar á miðbæjarsvæðinu og sé ekkert því til fyrirstöðu að skoða byggingu á þessum stað með tveimur hæðum hærra en gert er ráð fyrir í fyriliggjandi skipulagi."

Sigurður Guðmundsson bæjarfulltrúi Bæjarlistans sagðist fagna uppbyggingu í miðbænum en ítrekaði að ytra útlit hússins skuli vera í samræmi við þann byggingarstíl sem er þar fyrir. Þar sem lágreist byggð sé skuli byggja lágreist og svo öfugt. "Þessar áætlanir ættu að geta gengið upp ef menn vanda sig."

Nýjast