Kvöldsiglingar um Eyjafjörðinn með Húna II í sumar

Í sumar verður boðið upp á þrjár fastar ferðir á viku þar sem siglt er að kvöldlagi um Eyjafjörðinn með eikarbátnum Húna II. Hann er innréttaður til farþegaflutninga og hefur haffærisskírteini og björgunarbúnað fyrir allt að 100 farþega.  

Ferðirnar þrjár sem verða í boði í sumar eru eftirfarandi:
Eyjafjörðurinn fagri, þar sem ferðalangurinn kynnist firðinum bæði  af sjó og landi.  Lagt er af stað frá Akureyri með leiðsögumanni sem kynnir það helsta sem fyrir augu ber á leiðinni til Grenivíkur og er komið við á hinu sögufræga höfuðbóli Laufási og gamli torfbærinn heimsóttur.  Áfram er svo haldið til Grenivíkur þar sem farið er yfir sögu kauptúnsins og  rölt á bryggjunni áður en stigið er um borð í Húna sem tekur vel á móti gestum sínum.  Frá Grenivík er siglt til Akureyrar og tekur siglingin um tvær klukkustundir.  Á leiðinni er sagt frá því helsta sem fyrir augu ber. Ferðin tekur um 4.5 til 5 tíma.
Fyrir þá sem hafa áhuga á söguskoðun frá sjó verður boðið upp á sögusiglingu um Pollinn, þar sem leiðsögumaður fræðir gesti Húna II um þróun bæjarins, staðhætti og veiðiaðferðir fyrr og nú.  Siglt er um innaverðan fjörðinn og rennt fyrir fisk ef tækifæri gefst.  Sögusiglingin tekur um rúma klukkustund. Svo geta þeir sem vilja einfaldlega fara í kvöldsiglingu með Húna notið útivistar í um einn og hálfan klukkutíma að kvöldlagi með útsýni yfir strönd og bæ. Skipulagning ferðanna er samstarfsverkefni Húnamanna, SBA-Norðurleiðar, Grýtubakkahrepps og Laufás.  Einnig hefur Akureyrarstofa verið Húnamönnum innanhandar við undirbúning.  

Húni II er 132 brt. eikarbátur sem smíðaður var á Akureyri árið 1963. Báturinn var gerður út til fiskveiða í 30 ár en hefur verið í notkun sem ferða- og skemmtibátur frá árinu 1998. Hann er innréttaður til farþegaflutninga og hefur haffærisskírteini og björgunarbúnað fyrir allt að 100 farþega. Húni II kom til Akureyrar 2004 og er varðveittur sem safngripur í eigu Iðnaðarsafnsins á Akureyri.
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér þessa frábæru nýjung í ferðaþjónustu er bent á að hafa samband við Þorstein Pétursson Húnamann í síma 848 4864 eða í netfangið steinipje@simnet.is.  Einnig er haldið úti heimasíðu og er slóðin www.huni.muna.is

Nýjast