Samfylkingin rak dýrustu kosningabaráttuna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á Akureyri sl. vor. Heildarkostnaður við framboð flokksins nam rúmum 4,6 milljónum króna, þar af er auglýsingakostnaður kr. 1.805.410.- og kostnaður vegna prentunar og útgáfu kr. 242.586.-.
Næst dýrust var kosningabaráttan hjá L-lista, lista fólksins, sem fékk hreinan meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar, en ódýrust var hún hjá Framsóknarflokknum. Heildarkostnaður við kosningabaráttu L-listans var um 3,6 milljónir króna, þar af var auglýsingakostnaður kr. 1.533942.- og kostnaður við prentun og útgáfu um 790 þúsund krónur.
Vikudagur leitaði eftir upplýsingum um kostnað við framboðin sex sem buðu fram í maí sl. Auk L-listans buðu fram, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylkingin, Vinstrihreyfingin grænt framboð og Bæjarlistinn og fékk hver flokkur fékk einn bæjarfulltrúa í bæjarstjórn. Heildarkostnaður við framboð Sjálfstæðisflokksins nam kr. 3.281.422.- þar af var kostnaður vegna birtinga á auglýsingum kr. 688.907.
Heildarkostnaður vegna framboðs Vinstri grænna nam samtals kr. 2.769.736. - þar af var auglýsingakostnaður kr. 620.000.- og kostnaður við prentun, útgáfu og hönnun kr. 925.884.-. Heildarkostnaður við framboð Bæjarlistans nam kr. 2.647.300.- og þar af var kostnaður vegna auglýsinga kr. 2.188.845.-. Framsóknarflokkurinn rak ódýrustu kostningabaráttuna sem fyrr segir en heildarkostnaður flokksins var kr. 1.092.298.- þar af var kostnaður vegna auglýsinga og bæklingaútgáfu kr. 827.400.