Kosið verði um sameiningu Akureyrar og Grímseyjar í vor

Samstarfsnefnd um sameiningu Akureyrarkaupstaðar og Grímseyjarhrepps leggur til að kosið verði um sameiningu sveitarfélaganna samhliða kosningum til Alþingis 25. apríl nk.
Málið var til umfjöllunar á fundi bæjarráðs Akureyrar í morgun og var tillögunni vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Stefnt er að því að kjörstaður á Akureyri verði í Verkmenntaskólanum.

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að fela bæjarstjóra að leita eftir samningum við Verkmenntaskólann á Akureyri um að í skólanum verði kjörstaður í komandi alþingiskosningum. Undanfarna áratugi hefur kjörstaður á Akureyri vegna alþingis- og sveitastjórnarkosninga verið í Oddeyrarskóla. Dagný Magnea Harðardóttir skrifstofustjóri Ráðhússins segir að ástæður þess að verið sé að skoða þann möguleika að færa kjörstaðinn í VMA, séu að auðvelda aðgengi og fjölga kjördeildum í sívaxandi bæ. Dagný segir að fyrstu kosningar í "Barnaskóla Oddeyrar" hafi verið Alþingiskosningar hinn 11. júní 1967 en 1974 er farið að tala um Oddeyrarskóla Áður fyrr var kosið í Samkomuhúsinu en 1952 voru forsetakosningar og kosið í Gagnfræðaskólanum og kosið þar þangað til 1967.

Nýjast