Konur taka höndum saman á kvennafrídaginn á Akureyri

Kvennafrídagurinn verður haldin hátíðlegur á mánudag, 25. október. Á Akureyri munu konur taka saman höndum og byrja daginn á því að Ólöf Þórsdóttir frá Bakka í Öxnadal mun keyra um bæinn á traktor sínum með gjallarhorn og hvetja konur til að leggja niður störf sín. Kl 14.25 munu konur leggja niður störf sín og hittast og ganga saman fylktu liði niður í nýja Menningarhúsið Hof þar sem að skemmtidagskrá tekur við.  

Þórunn Hyrna landnámskona mun ávarpa konur og vera gestgjafi Hofs, ungar raddir munu syngja, Helena Eyjólfsdóttir söngkona tekur lagið, samtal verður milli þriggja kynslóða þar sem að Solveig Lára, Sigríður Hafstað og Gréta Kristín Ómarsdóttir deila upplifunum sínum af Kvennabaráttunni fyrr og nú og svo verður fjöldasöngur leiddur af Ragnheiði Júlíusdóttur og Snorra Guðvarðarssyni. Kynjagleraugun hafa verið seld víða um land og salan gengið vel sem og bókin "Á mannamáli" eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur en ágóðinn rennur til baráttunnar um kynferðisofbeldi. Ágóðinn á Akureyri rann til Aflsins, samtaka gegn kynferðis og heimilisofbeldi. Skotturnar, regnhlífasamband 23 kvenfélaga og kvennasambanda hafa staðið fyrir undirbúningi á Kvennafríi 2010.

Nýjast