Kirkjunnar menn búa sig undir að veita fólki aðstoð

Svavar Alfreð Jónsson sóknarprestur í Akureyrarkirkju segir að þar á bæ búi menn sig nú undir að mæta þeim áföllum sem þjóðin verði fyrir vegna tíðinda liðinna daga  í kjölfar bágs efnahagsástands.  "Við finnum fyrir miklu óöryggi og kvíða meðal okkar sóknarbarna en óvissan er mikil ennþá og menn vita ekki nákvæmlega hvernig þetta fer allt saman.  Áhrifin eru ekki að fullu komin fram," segir hann.  

Svavar Alfreð segir að kirkjan ætli að vera við því búin að fólk muni leita til hennar, "og við ætlum okkur að duga þjóðinni vel í raunum hennar og hremmingum," bætir hann við.  Hann segir nauðsynlegt að menn endurskipuleggi líf sitt þegar þrengist í búi, fólk þurfi að endurskoða lífshætti sína og gildismat og forgangsraða hlutunum að nýju.  Þó sé það ævinlega svo að þegar fólk lendi í raunum af margvíslegum ástæðum fylgi slíku ný tækifæri, þegar einar dyr lokist opnist aðrar.  "Við munum hvetja fólk til að fylgjast vel hvert með öðru, þegar gefur á bátinn er mikilvægt að standa saman og fá fólk til að gæta hvert að öðru, passa vel upp á fjölskyldu og vini og þá bendum við á að nauðsynlegt er að gefa eldri borgurum góðan gaum," segir hann og einnig að huga þurfi að þeim sem eru veikir fyrir og megi síst við skakkaföllum. 

Svavar Alfreð nefnir að eftir hremmningar af því tagi sem nú gangi yfir þjóðina megi gera ráð fyrir að menn komi sterkari og heilbrigðari út úr þeim á eftir.  Hraði hafi verið mikill undanfarin misseri og sókn eftir efnislegum hlutum, slíkt hafi brenglað hugmyndir manna um hamingju og lífsgæði og margir misst sjónar á því sem mest er um vert.  "Við munum leggja okkar af mörkum til að snúa þessum málum okkur til blessunar og ég held að ef við höfum rétta hugarfarið munum við tækla þær hremmingar sem við nú erum að ganga í gegnum og sjá ný tækifæri," segir Svavar Alfreð.

Nýjast