29. júní, 2010 - 14:39
Fréttir
Keyrt var á tvo kyrrstæða fólksbíla við Oddeyrargötu 4 á Akureyri í hádeginu í gær og
lét ökumaðurinn sem olli árekstrinum sig hverfa af vettvangi. Mildi þykir að enginn var í bílunum tveimur, sem voru lagðir í
bílastæði. Báðir bílarnir skemmdust töluvert og þurfti að draga annan bílinn í burtu. Einir Örn Einirsson er eigandi annars
bílsins. „Ég heyrði bara rosalegan hvell og þegar ég kom út var búið að keyra á bílinn minn og einnig bílinn við
hliðina á mínum,” segir Einir. Hann hefur þegar tilkynnt verknaðinn til lögreglu en ekkert hefur enn spurst til gerandans.
Einir segist hafa séð í skottið á bílnum þegar hann keyrði í burtu og að þetta hafi verið rauður kassalagaður
Cherokee jeppi. Einir biðlar til vitna að málinu af hafa samband við lögreglu í síma 464- 7700 og eins ef fólk getur gefið vísbendingar um
ferðir ökumannsins. „Bíllinn sem keyrði á hlýtur að vera eitthvað skemmdur líka og mér sýndist númerplatan byrja á 5
og enda á 8. Ef það hjálpar,” segir Einir. Hann hefur þegar látið meta á tjónið á sínum bíl sem er hátt
í eina milljón króna. Hann segir það best fyrir viðkomandi að gefa sig strax fram til lögreglu.