Kartöflurnar frekar seint á ferðinni í ár

Sumarið hafi verið í kaldari kantinum.
Sumarið hafi verið í kaldari kantinum.

„Uppskera er frekar seint á ferðinni hjá okkur þetta árið,“ segir Jón Helgi Helgason hjá Þórustaðakartöflum í Eyjafjarðarsveit. „Hún stækkar hratt og vonandi er ekki mikið meira en vika eða tvær í að við getum hafið upptekt.“

Jón Helgi segir að ekki hafi verið hægt að setja niður í garðana vegna svakalegrar bleytu í vor, vélar komust ekki um garðana til niðursetningar fyrr en seint í maí. Sumarið hafi verið í kaldari kantinum framan af en heldur hlýrra síðustu vikur. „Og þá fóru kartöflunar að taka vel við sér. Uppskera verður vonandi ágæt í ár.“

Jón Helgi segir að á Þórustöðum sé þess nú beðið að fá tveggja rása upptökuvél í gagnið en hún fer brátt í skip í Danmörku og flutt til Íslands í kjölfarið. „Það verður vonandi bylting fyrir okkur að fá vélina, við náum uppskerunni hraðar í geymslu en það er auðvitað lykilatriðið í þeim rússibana sem veðráttan á Íslandi er.“


Athugasemdir

Nýjast