Kartöflubændur hafa lokið við að setja niður

Kartöflubændur í Eyjafirði hafa nú nýlokið við að setja niður þetta vorið. Uppskera síðasta árs var þokkaleg að sögn Bergvins Jóhannssonar kartöflubónda á Áshóli í Grýtubakkahreppi, sem er jafnframt formaður Félags kartöflubænda. „Það var ágætis meðal uppskera en ekkert meira. Það var um tíu prósent minna hér á Eyjafjarðarsvæðinu í fyrra en árið áður," segir Bergvin.  

Hann segir sölu á kartöflum hafa gengið ágætlega en bændur eru nú flestir að selja sínar síðustu kartöflur. Sumaruppskeran horfir ágætlega en Bergvin á von á því að bændur taki upp í kringum verslunarmannahelgina. „Menn náðu að setja niður í þurrt og gott land en það hefur ekki verið hlýtt."

Kartöflubændur hafa barist í bökkum undanfarin ár og er sífellt að fækka í greininni. Bændurnir hafa lítið getað endurnýjað, hvort sem um er að ræða tæki og tól eða húsakosti. „Mönnum líst ekkert alltof vel á framhaldið og svo er líka bara samdráttur í neyslunni. Það er mun minni sala og hefur farið minnkandi en við reynum," segir Bergvin.

Nýjast