27. maí, 2008 - 19:48
Fréttir
Karlmaður hefur í Héraðsdómi Norðurlands eystra verið dæmdur í 10 mánaða fangelsi en hann var sakfelldur fyrir allmörg brot almennra
hegningarlaga sem fólust í alvarlegum hótunum í garð starfsmanna fjölskylduþjónustu sem og einnig alvarlegum hótunum sem beindust gegn
fyrrverandi eiginkonu hans.
Manninum var gert að greiða tveimur starfsmönnum félagsþjónustunnar bætur samtals að upphæð 560 þúsund krónur með
vöxtum auk þess að greiða sakarkostnað að upphæð tæplega 645 þúsund krónur. Brot mannsins sem ákært var fyrir voru 7
talsins, en hann hótaði starfsmönnum m.a. með líkamsmeiðingum, lífláti, að kveikja í húsum þeirra, þá veittist hann
að starfsmanni, henti kaffibolla í vegg með þeim afleiðingum að innihaldið svettist yfir skrifborð hans og ýtti því síðan af afli
í átt til hans loks kastaði hann logandi bensínsprengju á gám sem innihélt eigur eiginkonunnar fyrrverandi. Maðurinn á við nokkra
greindarskerðingu að stríða, svo og andlega erfiðleika. Félagsþjónustan hóf afskipti af málefnum fjölskyldunnar, en hann og eiginkonan
voru með þrjú ung börn á framfæri þegar þau þau hófust fyrir nokkrum árum. Tók maðurinn afskiptum
félagsmálayfirvalda ekki vel.
Í dómi Héraðsdóms segir að opinberir starfsmenn sem fjalla um viðkvæm persónuleg málefni geti átt von á að
einstaklingar sem störf þeirra varða geti orðið miður sín og misst andlegt jafnvægi. Hótunarbrot ákærða falli hins vegar langt
utan þeirra marka hegðunar sem afsakanleg verður talin með skírskotan til þessa. Brot ákærða voruað hluta til framin í
geðshræringu hans vegna málefna barns síns og hið sama gildi um brot gagnvart eiginkonu sem líka var framið í geðshræringu hans í
framhaldi af samskiptum við fyrrverandi eiginkonu sína vegna skilnaðar þeirra, þar sem hún hafði fyrr um daginn valdið skemmdum á bifreið hans.
Í dómnum kemur fram að því þyki eiga að beita lækkunarheimild 75. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar
ákærða hvað varðar brot hans samkvæmt greindum töluliðum.
Maðurinn á að baki nokkurn sakarferil og rauf með áðurnefndum brotum skilorð, því þótti ekki fært að skilorðsbinda 10
mánuða fangelsisrefsingu mannsins.
.