„Kæru yfirvöld, takið eftir okkur og komið með í að byggja þetta upp!“

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson hefur í nógu að snúast með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Mynd: Aðsend…
Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson hefur í nógu að snúast með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Mynd: Aðsend/Auðunn Níelsson.

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands tekur upp tónlist fyrir bandaríska kvikmyndarisa

„Kæru yfirvöld, takið eftir okkur og komið með í að byggja þetta upp!“

- Segir Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar


SinfóNord

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands (SN) hefur undanfarin ár róið á mið kvikmyndatónlistar og að sögn Þorvaldar Bjarna Þorvaldsson, tónlistarstjóra Menningarfélags Akureyrar hafa aflabrögð verið með eindæmum góð.

„Já við erum búin að vera á fullu frá fyrstu viku þessa árs. Búin með a.m.k. 10 titla. Þetta eru kvikmyndir, tölvuleikir, sjónvarpsseríur og undirspil fyrir stórhátíðir um allan heim,“ útskýrir Þorvaldur Bjarni í samtali við Vikublaðið.

Eins og Landsmót tónlistarfólks

Um þessar mundir hafa staðið yfir upptökur í Hofi á kvikmyndatónlist fyrir þrjá kvikmyndarisa í Bandaríkjunum. Að verkefnunum núna koma að sögn Þorvaldar Bjarna 100 manns í heila viku en leynd hvílir enn yfir því um hvaða kvikmyndaverkefni er að ræða. „Það eru bókstaflega allir sinfónískir hljóðfæraleikarar sem vettlingi geta valdið á Akureyri núna. Þetta er eins og landsmót tónlistarmanna og stemmarinn eftir því. Svo bætast við tónskáldin og framleiðendurnir sem kjósa að koma norður alla leið frá Bandaríkjunum, Þýskalandi, Ástralíu og London,“ segir hann og bætir við að tónlistarfólk sé áberandi á hótelum bæjarins. „Ef þú labbar óvart inn á hótel á Akureyri þá eru góðar líkur á að þú getir ráðið a.m.k. kammersveit til að leika fyrir þig. Það mundi ekki skorta í neina stöðu.“

 Nýr atvinnuvegur

Þorvaldur Bjarni

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hefur tekið upp tónlist fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta í Hofi undanfarin ár. Árið 2017 var tekin í notkun ný og fullkomin upptökuaðstaða í Hofi. Við það urðu kaflaskil og óhætt að segja að nýr atvinnuvegur hafi orðið til á Akureyri; framleiðsla á kvikmyndatónlist. Það eru engar ýkjur að SN og Hof sé komið rækilega á kortið í kvikmyndaheiminum:

„Það er augljóst því þessir aðilar eru allir að koma í annað eða þriðja sinn til okkar. En nú fyrst í eigin persónu,“ segir Þorvaldur Bjarni.

Þorvaldur Bjarni og Atli Örvarsson, tónskáld hafa unnið náið saman eftir að þeir fluttu báðir til Akureyrar árin 2014- og 2015. SN tók til að mynda upp tónlist eftir Atla við teiknimyndina Lói - þú flýgur aldrei einn í Hofi árið 2017. Verkefnið var á þeim tíma umfangsmesta tónlistarverkefni sem ráðist hafði verið í á Íslandi. 

Biðu ekki boðanna

„Lykillinn að þessu er að þegar við Atli Örvarsson fengum þessa hugmynd stuttu eftir að við fluttum norður, þá biðum við ekkert boðanna; við bara byrjuðum,“ segir Þorvaldur Bjarni og heldur áfram: „Atli tók sénsinn með stóra Hollywood mynd strax í verkefni tvö. Sú mynd varð sú söluhæsta í Bandaríkjunum haustið 2015. Þar var þá SN/SinfoniaNord búin að sanna sig og við komin með flott nafnspjald til að sækja fleiri verkefni. Greta Salóme var með okkur í þessu og tók líka upp hér fyrir Disney. Næst var svo VIKINGS serían, Lord of the Rings Live to film og boltinn aldeilis farinn að rúlla,“ segir hann.

 

Fjöldi verkefna í burðarliðnum

Þrátt fyrir undarlega tíma heimsfaraldurs er ekki útlit fyrir verkefnaskort hjá SN og tónlistarstjóranum. „Það eru spennandi verkefni framundan. Mynd um pirraðar risaeðlur, einn stærsti tölvuleikur heims í dag, ný sjónvarssería sem Atli er að vinna að með teymi sínu hér á Akureyri og spennandi spennumynd fyrir börn þar sem ég sem tónlistina og veifa sprotanum eins og í söngleiknum Benedikt Búálfur,“ segir Þorvaldur Bjarni og bætir við að þessi starfsemi hafi ómetanlega þýðingu fyrir samfélagið á Akureyri og alla sem taka þátt í starfinu.

„Svo er svona auka hagnaður af þessu öllu saman því það að þetta skuli að vera að gerast hér rétt við Norður heimskautið gerir þetta allt saman miklu exótískara, bæði fyrir okkur sem búum hér og gestina sem kaupa þjónustuna og ferðast þúsund mílur til að vera með okkur. Þetta býr til stolt í brjóstum bæjarbúa og við erum að búa til tekjur fyrir samfélagið í brakandi ferskum nýjum gjaldeyri,“ segir Þorvaldur Bjarni og sendir í leiðinni stjórnvöldum skýr skilaboð inn í kosningabaráttuna. „Kæru yfirvöld, takið eftir okkur og komið með í að byggja þetta upp! Við þurfum bara smá hjálp með kostnað við ferðir listamanna um há vetrartímann og sinfóníski mótorinn mun mala inn í framtíðina.“


Athugasemdir

Nýjast