KA vann sinn annan leik í röð- Jafnt á Víkingsvelli

KA hafði betur gegn Njarðvík, 2:1, er liðin mættust á Akureyrarvelli í dag á Íslandsmótinu í 1. deild karla í knattspyrnu. David Disztl og Janez Vrenko skoruðu mörk KA en Andri Fannar Freysson skoraði mark Njarðvíkur. KA hefur þar með unnið tvo leiki í deildinni í röð og er komið með 19 stig í áttunda sæti og er hægt og bítandi að slíta sig frá fallbaráttunni. Á sama tíma gerðu Víkingur R. og Þór 1:1 jafntefli toppslag á Víkingsvelli.

 

Víkingur komst yfir með marki frá Jakobi Spangsberg á 82.mínútu en Aleksandar Linta jafnaði fyrir Þór úr vítaspyrnu þremur mínútum fyrir leikslok. Þórsarar hafa 29 stig í öðru sæti, jafnmörg stig og Víkingur R. en betra markahlutfall. Leiknir R. situr á toppnum með 31 stig.

Á Akureyrarvelli kom fyrsta mark leiksins á 19. mínútu og það gerði David Disztl með fínum skalla eftir sendingu frá Hauki Heiðari Haukssyni og kom KA 1:0 yfir. Andri Fannar Freysson jafnaði metin fyrir Njarðvík á 34. mínútu og þannig stóðu leikar allt þar til tíu mínútur voru til leiksloka. Haukur Heiðar var þá aftur á ferðinni fyrir KA og sendi boltann fyrir markið í fæturnar á Janez Vrenko, sem lagði boltann fyrir sig og skoraði í bláhornið. Lokatölur 2:1 sigur KA- manna.

Nýjast