KA- menn skoruðu fyrsta mark leiksins eftir níu mínútna leik og þar var að verki Andri Fannar Stefánsson er hann skoraði með fínu skoti inn í teig. Kristinn Freyr Sigurðsson jafnaði metin fyrir Fjölni á 16. mínútu er hann spólaði sig í gegnum vörn KA og skoraði af stuttu færi.
Heimamenn fengu svo dæmda vítaspyrnu á 32. mínútu er brotið var á David Disztl inn í teig. David fór sjálfur á punktinn og skoraði örugglega og kom KA yfir á nýjan leik. Staðan 2:1 í hálfleik.
Fjölnismenn voru mun aðgangsharðari í upphafi seinni hálfleiks og það skilaði þeim marki á 62. mínútu er Gunnar Valur Gunnarsson skallaði boltann í netið eftir fyrirgjöf. Það voru hins vegar KA- menn sem áttu lokaorðið þegar Guðmundur Óli Steingrímsson fékk boltann fyrir utan vítateig gestanna á 77. mínútu, lék á varnarmann Fjölnis og skoraði örugglega í bláhornið og tryggði KA þrjú dýrmæt stig.
Eftir sjö umferðir er KA komið með 9 stig í sjötta sæti deildarinnar en Fjölnir hefur 12 stig í fjórða sæti.