Íslandsmeistarar KA eru komnir á toppinn á Íslandsmótinu í 1. deild karla í blaki eftir 3:1 sigur gegn Stjörnunni í dag á heimavelli. KA vann fyrstu hrinuna 25:21, Stjarnan þá næstu 25:20 en KA tók næstu tvær hrinur 25:22 og 25:15. Piotr Kempisty skoraði 24 stig fyrir KA-menn en Róbert Karl Hlöðversson skoraði 18 stig fyrir Stjörnuna. KA, HK og Stjarnan hafa öll 10 stig í þremur efstu sætunum en KA vermir toppsætið með besta hlutfallið.
KA-stúlkurnar voru einnig í eldlínunni í dag er þær mættu Stjörnustúlkum í KA-heimilinu í 1. deild kvenna og höfðu heimamenn betur 3:1. KA vann fyrstu hrinuna 25:18 en Stjarnan þá næstu 25:20. KA-stúlkur unnu hins vegar næstu tvær hrinur, 25:19 og 25:15.
Auður Anna Jónsdóttir var stigahæst í liði KA með 14 stig en Hjördís Eiríksdóttir var atkvæðamest hjá Stjörnunni með 11 stig. KA hefur fimm stig í næstneðsta sæti eftir þrjá leiki en Stjarnan vermir botnsætið einnig með fimm stig eftir fimm leiki.