Tveir nágrannaslagir fóru fram í Skautahöll Akureyrar í gærkvöld á Íslandsmótinu í íshokkí. Annars vegar áttust við SA Valkyrjur og SA Ynjur í kvennaflokki og hins vegar SA Víkingar og SA Jötnar í karlaflokki. Í kvennaflokki höfðu Valkyrjur yfirburði gegn Ynjum og sigruðu 9:1. Í karlaflokki urðu óvænt úrslit en þar unnu Jötnarnir 3:2 sigur gegn Víkingum.
Birna Baldursdóttir var markahæst í liði Valkyrja með þrjú mörk og þær Guðrún Blöndal og Hrönn Kristjánsdóttir skoruðu tvö mörk hvor. Sarah Smiley og Guðrún Arngrímsdóttir skoruðu eitt mark hver. Mark Ynja skoraði Thelma M. Guðmundsdóttir.
Jón B. Gíslason skoraði tvívegis fyrir SA Jötna og Aron Böðvarsson eitt mark. Mörk Víkinganna skoraði Sigurður Sveinn Sigurðsson.