Leik Akureyrar og Fram í N1-deild karla í handbolta var að ljúka í Höllinni með jafntefli 21-21 í gríðarlega spennandi og spennuþrungnum leik þar sem mikil dramatík var á loka mínútunum. Markverðir liðanna voru frábærir, Hafþór Einarsson hjá Akureyri varði 23 skot en kollegi hans hjá Fram, Davíð Svansson varði 30. Stefán Árnason, aðstoðarþjálfari Akureyrar var nokkuð sáttur í leikslok:
,,Ég er sáttur við stigið þó að vissulega hefðum við með smá heppni getað tekið þau bæði. Það er hins vegar gott að vera búinn að benda endi á þessa taphrinu. Það er líka mjög gott að liðið er líka farið að spila eins og það á að gera, þ.e. spila sterka vörn og keyra hraðaupphlaup. Allir leikmenn gáfu líka allt í þetta þanngi það voru margir jákvæðir hlutir í þessu hjá okkur."
Sannarlega var varnarleikurinn í fyrirrúmi hjá báðum liðum í þessum leik og má segja að fyrstu 8 mínúturnar hafi verið gott dæmi um það en á þessum mínútum náðu liðin ekki að skora eitt einasta mark. Það voru svo Frammarar sem náðu að brjóta ísinn en Akureyri jafnaði jafn harðan.
Um miðbik fyrri hálfleiks hafði Fram náð þriggja marka forystu 6-3 og fór eflaust léttur hrollur um nokkra stuðningsmenn Akureyrar enda liðinu ekki gengið vel að undanförnu. Leikmenn liðsins létu þetta þó ekki á sig fá og náðu með miklu harðfylgi að koma sér aftur inn í leikinn. Staðan í hálfleik var 12-11 gestunum í vil og allt í járnum.
Seinni hálfleikur var með eindæmum spennandi frá upphafi til enda. Fram náði tveggja marka forystu í byrjun hálfleiksins en Akureyri jafnaði. Þegar um tíu mínútur voru eftir náði Akureyri tveggja marka forystu en Fram jafnaði jafn harðan. Eftir það munaði aldrei meir en einu marki.
Þegar fimm mínútur voru eftir var staðan 19-19 og hún var 20-20 þegar um tvær mínútur voru eftir. Akureyri komst yfir 21-20 þegar um ein og hálf mínuta lifði leiks og náðu boltanum svo á nýjan leik. Andri Snær Stefánsson fékk svo mjög gott færi til að nánast gulltryggja sigurinn þegar rúmlega ein mínúta var eftir en skaut í stöng. Frammarar náðu boltanum og geystust í sókn sem lauk með því að þeir fengu vítakast og Goran Gusic leikmanni Akureyrar var vikið af velli fyrir brot. Úr vítinu skoruðu gestirnir þegar um 50 sek lifðu leiks og spennan hreinlega ótrúleg.
Akureyri reyndi allt hvað þeir gátu til að tryggja sér sigurinn en náðu því ekki þrátt fyrir tvær ágætis tilraunir og sanngjarnt jafntefli því niðurstaðan í leik sem var skemmtilegur þrátt fyrir að eflaust hafi verið spilaður fallegri handbolti á fjölum Hallarinnar.
Hafþór Einarsson var eins og áður sagði frábær í markinu en af útileikmönnunum átti Andri Snær Stefánsson einna besta leikinn og skoraði 7 mörk. Oddur Gretarsson skoraði 3, Goran Gusic 3, Hreinn Hauksson 3, Hörður Fannar Sigþórsson skoraði 2 og átti stórleik í vörninni ásamt Rúnari Sigtryggssyni og Hrein Haukssyni, Jónatan Magnússon skoraði 1 og Anton Rúnarsson 1.
Áhorfendur voru 500-600 talsins og var stemmning fín allan tíman.