Jafnt hjá Þór og Fjölni- KA vann á útivellli

Þór og Fjölnir gerðu í dag 1:1 jafntefli í 1. deild karla í knattspyrnu á Þórsvelli í fyrstu umferð deildarinnar. Fjölnir komst yfir með marki Viðars Guðjónssonar á 18. mínútu en Jóhann Helgi Hannesson jafnaði fyrir Þór skömmu síðar og þar við sat. KA gerði góða ferð suður er liðið vann 2:1 útisigur á Þrótti R. á Valbjarnarvelli fyrr í dag. Fyrsta mark KA manna var sjálfsmark gestanna en Haukur Hinriksson tryggði KA sigur með marki sjö mínútum fyrir leikslok.  

Í leik Þórs og Fjölnis voru það heimamenn í Þór sem voru sprækari í upphafi leiks. Það voru hins vegar Fjölnismenn sem skoruðu fyrsta mark leiksins og það kom á 19. mínútu. Aukaspyrna var þá dæmd á Þór rétt utan við vítateigslínuna. Viðar Guðjónsson tók spyrnuna og skoraði með góðu skoti og kom gestunum 1:0 yfir. Það tók heimamenn hins vegar aðeins mínútu að jafna leikinn og það gerði Jóhann Helgi Hannesson með skoti af stuttu færi. Þrátt fyrir ágætis marktækifæri á báða bóga tókst hvorugu liðinu að bæta við marki fyrir hálfleik. Staðan í leikhléi, 1:1. 

Seinni hálfleikur leiksins var tíðindalítill en Þórsarar með undirtökin í leiknum. Besta færi seinni hálfleiksins kom á 60. mínútu og það fékk Nenad Zivanovic fyrir heimamenn, er hann skallaði boltann hárfínt yfir mark Fjölnis af stuttu færi eftir hornspyrnu. Lítið markvert gerðist eftir þetta. Þórsarar voru meira með boltann en náðu ekki að færa sér það í nyt og niðurstaðan 1:1 jafntefli. 

Þórsarar hafa því eitt stig að loknu fyrstu umferð deildarinnar en KA þrjú stig.

 

Nýjast