Jafnt á Akureyrarvelli-Þór vann örugglega í Breiðholtinu

KA og Leiknir R. gerðu 2:2 jafntefli í dag er liðin áttust við á Akureyrarvelli á Íslandsmótinu í 1. deild karla í knattspyrnu. Eftir að hafa lent 0:2 undir komu KA-menn sterkir til baka og náðu að jafna metin. Mörk KA í leiknum skoruðu þeir Guðmundur Óli Steingrímsson og Haukur Heiðar Hauksson en fyrir Leikni skoruðu þeir Kjartan Andri Baldvinsson og Aron Fuego Daníelsson. Þá gerði Þór góða ferð suður í Breiðholtið fyrr í dag þar sem liðið lagði ÍR að velli 3:0. Aleksandar Linta skoraði tvö marka Þórs á tveggja mínútna kafla í fyrri hálfleik og Sveinn Elías Jónsson bætti við þriðja markinu snemma í seinni hálfleik.

Þessi úrslit þýða að Víkingur R. og Leiknir R. hafa 39 stig í toppnum en Þór kemur þar rétt á eftir með 37 stig í þriðja sætinu. Það stefnir því í æsispennandi baráttu þessara þriggja liða um sæti úrvalsdeildinni, þegar þrjár umferðir eru eftir. KA situr í sjöunda sæti með 24 stig. 

Á Akureyrarvelli voru það gestirnir í Leikni sem byrjuðu betur og skoruðu fyrsta markið er stundarfjórðungur var liðinn af leiknum. Leiknismenn fengu þá dæmda vítaspyrnu er boltinn fór í höndina á leikmanni KA. Kjartan Andri Baldvinsson skoraði úr vítinu en Sandor Matus í marki KA varði boltanum inn. Leiknismenn bættu svo við öðru marki skömmu fyrir leikhlé og það gerði Aron Fuego Daníelsson er hann fékk boltann utarlega í teig heimamanna og skoraði með flottu skoti í bláhornið.

Heimamenn gáfust ekki upp og snemma í seinni hálfleik eða á 50. mínútu minnkaði Guðmundur Óli Steingrímsson muninn fyrir KA með fínum skalla eftir fyrirgjöf fyrir markið. Heimamenn náðu svo að jafna metin á 71. mínútu og það gerði Haukur Heiðar Hauksson með marki beint úr aukaspyrnu. Lokatölur 2:2.

Nýjast