Íþróttir í aðdraganda kosninga

Jónas Halldór Friðriksson
Jónas Halldór Friðriksson

Nú styttist óðum í kosningar og til að taka af allan vafa að þá er undirritaður ekki í framboði. Hinsvegar hefur undirritaður starfað innan íþróttahreyfingarinnar undanfarin ár sem framkvæmdastjóri Völsungs og komið því með beinum hætti að íþróttastarfi í sveitarfélaginu. Það er mikilvægt að við byggjum sveitarfélag sem er barnvænt, sveitarfélag sem er aðlaðandi fyrir barnafjölskyldur að búa í. Lykilþættir í þessu eru góðir leik- og grunnskólar ásamt öflugu íþróttastarfi. Allavegana myndi ég fyrst kanna þessa þrjá þætti ef ég væri að hugsa mér til hreyfings, þessir þættir eru því í mínum huga mikilvægastir ef við ætlum að vera samkeppnishæf sem sveitarfélag á landsvísu.

Ástæða ritunar er að mér finnst íþróttastarf ekki hafa fengið nægt pláss í umræðum í aðdraganda kosninga. Einungis hafa fulltrúiar frá tveimur framboðum komið í vallarhúsið, félagsaðstöðu Völsungs til að taka púlsinn.

En hvað er Völsungur?

Völsungur er stofnað 1927 og er samofið samfélaginu á Húsavík. Félagið er fjölgreinafélag sem sinnir íþróttastarfi og forvarnarmálum fyrir Húsavík og talsvert víðar. Eftirspurn eftir afþreygingu utan skóla er mikil og hefur Völsungur reynt að anna þeirri eftirspurn eins og kostur er allan ársins hring. Auðvitað væri gaman ef íþróttafélagið Völsungur gæti sinnt þörfum allra og boðið upp á alla þá afþreygingu sem hugsast getur. En það er líklega óraunhæft. Þó má líklega segja að félagið sé annsi öflugt eins og starfsemin sýnir fram á.  Starfsemin nær til barna og unglinga frá 2 ára aldri, upp í afreksstarf í meistaraflokkum í knattspyrnu og blaki og allt út í almenna hreyfingu fólks á öllum aldri og upp í eldri borgara. Starfsemin er því viðamikil. Iðkendur í félaginu eru ríflega 450 og skráðir félagsmenn 18 ára og eldri eru um 1100. Allir núlifandi Húsvíkingar hafa komið með einhverjum hætti að starfi félagsins, hvort heldur sem iðkendur, foreldrar, í stjórnarsetu eða með öðrum hætti. Saga íþróttastarfs á Húsavík er því að mestum hluta saga Völsungs. Við erum í raun öll Völsungar.

Eins og ég sagði áðan að þá finnst mér íþróttastarf ekki fá nægjanlegt rými í umræðunni í aðdraganda kosninga. Við erum á ákveðnum tímamótum í íþróttastarfi á Húsavík. Vinna er í gangi að samþættingu skóla-, tómstunda- og íþróttastarfs fyrir börn frá 5-9 ára. Hugmynd sem ýtt var úr vör af aðalstjórn Völsungs. Það verður gaman að vinna að þróun þessa verkefnis áfram og sjá það raungerast á haustdögum. Hinsvegar er gríðarlega ábótavant í okkar sveitarfélagi að móta stefnu í íþrótta- og æskulýðsmálum. Við erum orðin eftirbátur annarra þegar kemur að þessum málum. Stefnan þarf að innihalda raunstöðu eins og hún er í dag og í henni þarf að vera markmið um hvernig við viljum hátta málum til framtíðar. Þar að auki þarf að koma fram hvernig við ætlum að byggja íþróttamannvirki til frambúðar og hvernig við ætlum að viðhalda þeim mannvirkjum sem eru nú þegar til staðar. Þessa stefnu sárvantar í okkar samfélagi. Ef við lítum í kringum okkur að þá fór Árborg í þessa vinnu 2007 og í dag er gríðarlegur metnaður í uppbyggingu á íþróttamannvirkjum i sveitarfélaginu. Árborg er í dag gríðarlega eftirsóknarverður staður til að búa á og í mínum huga raunverulegur valmöguleiki ef ég væri að velja mér sveitarfélag til að búa í. Að auki myndi þessi stefna gera ráð fyrir fjárframlögum til íþróttafélaga og hvernig þeim verði háttað til lengri tíma. Íþróttafélag eins og Völsungur gæti því farið að setja sér langtímamarkmið um starfsemi félagsins. Þörfin er því mikil og ekki seinna en strax eftir kosningar að hefjast handa við þessa vinnu.

Knattspyrnuvellirnir eru stórt og mikið mannvirki á Húsavík. Mannvirkið var reist árið 2012 og hefur verið í daglegri notkun síðan. Er í raun eina íþróttamannvirkið sem iðkendur félagsins nýta sér alla mánuði ársins. Gríðarlega góð framkvæmd sem hefur nýst öllum bæjarbúum. Á árinu 2021 komu í kringum 60 þúsund manns á svæðið tengt íþróttastarfsemi. Þar erum við að tala um iðkendur, foreldra, áhorfendur og aðra því tengdu. Þarna erum við ekki með inn í tölunni alla sem koma daglega til að ganga á vellinum eða hlaupa. Norðurþing á og rekur mannvirkið og hefur viðhaldi og þjónustu við svæðið verið ábótavant. Ekki hefur verið starfsmaður á svæðinu til að sinna daglegu amstri, ss þrifum, umhirðu og öðru er viðkemur daglegum rekstri á álíka mannvirki. Völsungur sendi á sínum tíma erindi á mennta- og menningarmálaráðuneytið til að forvitnast um hverslags starfsemi væri skylt að vera með í mannvirki eins og knattspyrnusvæðið er. Svarið var ekki flókið, sömu reglur gilda og fyrir rekstur á t.d íþróttahöllum. Við höfum því forskrift að því hvernig skuli reka svona mannvirki í okkar sveitarélagi. Við erum í rauninni komin fram yfir síðasta söludag í þessum efnum og vart hægt að bíða eftir nýrri sveitarstjórn til að taka þetta mál föstum tökum.

Mig langar að ljúka þessum pistli mínum á spurningum til framboða og óska um leið eftir svörum:

  1. Hver er afstaða þíns framboðs til stefnu í íþrótta- og æskulýðsmálum?
  2. Mun þitt framboð beita sér fyrir því að stefna í íþrótta- og æskulýðsmálum verði mótuð?
  3. Hverjar eru áherslur ykkar framboðs þegar kemur að íþrótta- og æskulýðsmálum?
  4. Nú á Norðurþing knattspyrnuvellina og ber ábyrgð á rekstri þeirra og umhirðu. Mun þitt framboð beita sér fyrir því að starfsemin og þjónustan á svæðinu verði í samhengi við þá starfsemi sem fer fram á svæðinu? Ef svarið er já, með hvaða hætti? Ef svarið er nei væri gott að fá nánari útskýringu á því svari.

Að lokum langar mig að óska öllum frambjóðendum velfarnaðar á komandi vikum og benda á að félagsaðstaða Völsungs er opin alla daga og þar er heitt á könnunni fyrir alla þá sem vilja kynna sér starfsemi félagsins nánar.

Áfram Völsungur

Jónas Halldór Friðriksson
Framkvæmdastjóri Völsungs


Athugasemdir

Nýjast