Íþróttamiðstöð Giljaskóla formlega vígð á sunnudag

Ný og glæsileg Íþróttamiðstöð Giljaskóla verður formlega vígð næstkomandi sunnudag kl. 14.00. Af því tilefni er bæjarbúum og öðrum áhugasömum boðið að sjá skemmtiatriði ungra Akureyringa, skoða húsakynnin og þiggja veitingar. Húsið gjörbreytir allri aðstöðu ungmenna til fimleika- og íþróttaiðkunar. Húsið er sérhannað fimleikahús og hefur breytt gríðarlegu miklu fyrir fimleikafólk.  

„Nú erum við komin í sérhannað fimleikahús og það var aldeilis orðið tímabært og nú getur félagið farið að blómstra," sagði Birna Ágústdóttir formaður FIMAK í samtali við Vikudag nýlega. Áður hafi félagið búið við þröngan kost í íþróttahúsi Glerárskóla til fjölda ára. Í Íþróttamiðstöð Giljaskóla fer einnig fram leikfimikennsla skólans.

Fyrsta skóflastunga að byggingunni var tekin í júní 2008 og upphaflega átti að taka húsið í notkun í júlí 2009. Verktakinn sem hóf framkvæmdir tilkynnti í fyrrasumar að hann treysti sér ekki til að ljúka byggingunni og sagði sig frá verkinu. Í framhaldinu voru framkvæmdir boðnar út að nýju og í kjölfarið samið við SS Byggi en tilboð fyrirtækisins var metið hagstæðast. Verkið fól í sér fullnaðarfrágang á byggingunni, innan sem utan, og frágang á lóð. SS Byggir afhenti svo Íþróttamiðstöð Giljaskóla til notkunar í ágúst sl.

Nýjast