„Nú erum við komin í sérhannað fimleikahús og það var aldeilis orðið tímabært og nú getur félagið farið að blómstra," sagði Birna Ágústdóttir formaður FIMAK í samtali við Vikudag nýlega. Áður hafi félagið búið við þröngan kost í íþróttahúsi Glerárskóla til fjölda ára. Í Íþróttamiðstöð Giljaskóla fer einnig fram leikfimikennsla skólans.
Fyrsta skóflastunga að byggingunni var tekin í júní 2008 og upphaflega átti að taka húsið í notkun í júlí 2009. Verktakinn sem hóf framkvæmdir tilkynnti í fyrrasumar að hann treysti sér ekki til að ljúka byggingunni og sagði sig frá verkinu. Í framhaldinu voru framkvæmdir boðnar út að nýju og í kjölfarið samið við SS Byggi en tilboð fyrirtækisins var metið hagstæðast. Verkið fól í sér fullnaðarfrágang á byggingunni, innan sem utan, og frágang á lóð. SS Byggir afhenti svo Íþróttamiðstöð Giljaskóla til notkunar í ágúst sl.