Ístak bauð lægst í lengingu Akureyrarflugvallar

Vertakafyrirtækið Ístak átti lægsta tilboð í lengingu Akureyrarflugvallar en tilboð í verkið voru opnuð hjá Ríkiskaupum kl. 14.00 í dag. Ístak bauð rúmar 475 milljónir króna í verkið en kostnaðaráætlunin var upp á tæpar 555 milljónir króna. Tilboð Ístaks er því um 85% af kostnaðaráætlun. Alls bárust 6 tilboð í verkið og eitt frávikstilboð.

Árni Helgason í Ólafsfirði og GV gröfur á Akureyri buðu sameiginlega í verkið og áttu næst lægsta tilboðið. Það var upp á um 486,6 milljónir króna eða rúmlega 87% af kostnaðaráætlun. Um er að ræða m.a. jarðvegsskipti í suðurenda brautar á um 600 metra löngu svæði, á um 150 metra svæði á norðurenda, auk þess að styrkja axlir meðfram eldri flugbraut og ýmislegt fleira. Klæðning átti þriðja lægsta tilboð, hálfan milljarð króna, eða um 90% af kostnaðaráætlun, Háfell bauð um 542 milljónir króna eða um 97%, Suðurverk og G. Hjálmarsson buðu sameiginlega um 567,8 milljónir króna eða um 102%. Fyrirtækin voru einnig með frávikstilboð upp á rúmar 530 milljónir króna. Héraðsverk átti svo lang hæsta tilboðið, eða um 948,7 milljónir króna eða um 170% af kostnaðaráætlun.

Samkvæmt útboðinu skal verktaki jafnframt færa Brunná suður fyrir flugvöll og rofverja nýjan farveg að hluta, koma upp öryggisgirðingu og hliðum, undirstöðum undir loftnet, meðhöndlar eldri strengi á svæðinu og sáir í öryggissvæði. Samkvæmt útboði eru helstu magntölur þessar: Gröftur 100.000 rúmmetrar, undirbygging og fylling um 180.000 rúmmetrar, efraburðarlag um 16.000 rúmmetrar og lagnaskurðir um 7.000 metrar.

Ríkiskaup hafa jafnframt fyrir hönd Flugstoða auglýst eftir tilboðum í malbikun Akureyrarflugvallar, þar sem heildarlengd brautar verður 2,7 km eftir lengingu. Eldri flugbraut verður afrétt með flatarfræsingu og malbiki áður en yfirborðslag verður lagt. Á nýja hluta flugbrautar verða lögð tvö malbikslög, nema á axlir þar sem einungis verður lagt yfirborðslag. Þá skal verktaki koma sér upp malbikunarstöð, afla starfsleyfis og leggja til allt efni til verksins. Tilboð í þetta umfangsmikla verk verða opnuð 17. apríl nk.

Nýjast