Íslenska krullulandsliðið fékk brons í C-flokki á EM

Íslenska krullulandsliðið hefur lokið keppni í C-flokki Evrópumótsins í krullu. Liðið tapaði naumlega síðasta leik sínum í keppninni, gegn Litháum og missti þar með af sæti í úrslitaleiknum og B-keppninni sem fram fer í Sviss í desember. Leikurinn var jafn og spennandi eins og flestir leikir liðsins á mótinu.  

Litháar náðu forystunni í upphafi en Íslendingar héldu takti, jöfnuðu og komust yfir þegar leið á leikinn. Fyrir lokaumferðina var staðan 7-6 Íslendingum í vil en Litháar náðu að skora tvö stig í lokaumferðinni og vinna leikinn.  Þessi úrslit þýða að Slóvakar og Hvít-Rússar enda jafnir með fimm vinninga en Íslendingar náðu sér í bronsverðlaun með fjóra sigra og tvö töp. Slóvakar og Hvít-Rússar unnu sér þar með rétt til að keppa í B-keppni Evrópumótsins í desember og leika auk þess úrslitaleik um gullverðlaunin í C-flokki.

Litlu munaði að Íslendingar næðu að fara alla leið því báðir tapleikirnir voru mjög jafnir og töpuðust á síðasta steini í síðustu umferð leikjanna. Þegar upp er staðið geta liðsmenn þó unað sáttir við sitt þrátt fyrir að mál einhverra sem fylgdust með keppninni hafi verið að íslenska liðið hafi verið það sterkasta í keppninni - aðeins hafi vantað upp á að sýna það þegar á reyndi í þessum tveimur leikjum.

Nýjast