Ísland standi utan Evrópusambandsins

Kjördæmisþing VG í Norðausturkjördæmi, sem haldið var í Vogafjósi í Mývatnssveit um síðustu helgi, skorar á ríkisstjórnina að beita sér fyrir umtalsverðri hækkun auðlegðarskatts. Þá lýsir þingið ánægju sinni með þá ákvörðun ráðherra flokksins að taka ekki við styrkjum frá Evrópusambandinu í tengslum við yfirstandandi aðildarviðræður.  

Þingið telur eðlilegast að öll ráðuneyti hafi sama háttinn á en að öðrum kosti verði andstæðingum inngöngu í ESB lagt til sambærilegt fjármagn til að halda sínum málstað á lofti. Ítrekuð er sú stefna flokksins um að Ísland skuli standa utan Evrópusambandsins og minnt á samþykktir landsfundar og flokksráðs þar að lútandi. Kjördæmisþing VG beinir því til stjórnvalda, sveitarfélaga og ríkisvalds að endurskoða og hækka viðmið um lágmarks framfærslukostnað sem lið í baráttu gegn fátækt. Þá áréttar þingið stefnu flokksins um að Ísland skuli segja sig úr Atlantshafsbandalaginu og landið skuli vera ævarandi hlutlaust og utan hernaðarbandalaga.

Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa ávörpuðu Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og Björn Valur Gíslason, þingmaður, fundinn og svöruðu spurningum frá fundargestum.

Nýjast