Icelandairhótels opna nýtt heilsárshótel á Akureyri næsta sumar

Icelandairhótels munu opna nýtt heilsárshótel á Akureyri þann 1 júní 2011. Félagið hefur gert leigusamning til næstu 20 ára um rekstur heilsárshótels í húsinu að Þingvallastræti 23, en húsið verður endurnýjað og sniðið að þörfum hótelreksturs nú í vetur.  

Icelandairhótel Akureyri mun bjóða uppá alls 101 herbergi, 63 herbergi verða tilbúin þann 1. júní n.k, og önnur 38 þann 1. júní 2012. Auk þeirra herbergja sem tilbúin verða á komandi vori verður jafnframt tekin í notkun veitingasalur og bar, en einnig eru áform um byggingu á fallegum hótelgarði í nánustu framtíð.

Icelandairhótel er leiðandi keðja gæðahótela á Íslandi. Önnur hótel í keðjunni eru: Loftleiðir, Hengill, Flúðir, Hamar, Klaustur, Hérað og Flughótel Keflavík. „Við höfum lengi haft augastað á Akureyri sem vænlegri staðsetningu fyrir nýtt hótel í okkar keðju, en jafnframt viljað vanda valið á byggingu og samstarfsaðilum", segir Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandairhótela í fréttatilkynningu.

„Icelandairhótel Akureyri er því kærkomin viðbót í okkar rekstur, og við hlökkum til að leggja okkar að mörkum við að byggja enn frekar upp það góða starf sem átt hefur sér stað í ferðaþjónustu Akureyrarbæjar fram til þessa."

Það var Pálmar Harðarson sem átti hæsta kauptilboð í húseignina Þingvallastræti 23 en tilboðin voru opnuð hjá Ríkiskaupum í síðasta mánuði. Tilboð hans hljóðaði upp á 160 milljónir króna og var gengið frá kaupunum fyrir skömmu. Húsið var í eigu Akureyrarbæjar og ríkisins og átti hvor aðili 50% eignaraðild.

Nýjast