Íbúar fari með endurvinnslu- sorp út á hverfisvelli

Fulltrúar L-listans í framkvæmdaráði Akureyrarbæjar samþykktu á dögunum að farin yrði leið B í sorphirðu á Akureryi, en fjallað var um sorpmál og framtíðarsýn á fundi ráðsins á dögunum. Tvær leiðir, nefndar A og B voru til umfjöllunar og sýndist sitt hverjum.  

Helgi Már Pálsson deildarstjóri framkvæmdadeildar segir að leið A snúist um að við hvert heimili séu þrjú sorpílát og að lausn verktakans sem fyrirhugað er eða semja við um sorphirðu í bænum gangi út á að ílát fyrir  lífrænan eldhúsúrgang sé  ofan í svokallaðri almennri tunnu og síðan er hefðbundin endurvinnslutunna eins og við þekkjum hana. „Þetta yrðu sem sagt tvær hefðbundnar sorptunnur eins og við þekkjum þær út á lóð," segir hann. Hin leiðin, eða leið B er hins vegar þannig að endurvinnslutunnan sé ekki lengur við hvert heimili heldur úti á hverfisvelli, sem yrðu þá alls 12 og þangað er íbúum stefnt með úrgang til endurvinnslu.  Íbúar geta þó áfram keypt endurvinnslutunnu og haft við heimili sitt kjósi þeir það, en munu þá greiða hærri gjöld en þeir sem að flokka á hverfisvöllum bæjarins.

Fulltrúi Framsóknarflokks í ráðinu taldi rétt að fara leið B, það væri skref í rétta átt í sorpmálum en kvaðst þó hugnast leið A betur hefðu forsendur allar staðist.  Fulltrúi Sjálfstæðisflokks taldi rétt að fara A-leiðina og fulltrúi Samfylkingar í framkvæmdaráði lýsti í bókun yfir vonbrigðum með þessar fyrirætlanir. Hann skorar á bæjarstjórn að sýna metnað sinn í umhverfismálum og  falla frá þessum áformum, en staðfesta fremur ákvörun fyrri bæjarstjórnar sem var í þá veru að gera íbúum kleift að stórauka flokkun heimilissorps með þriggja ílátakerfi við hvert heimili.

Nýjast