Fyrsta mál nýrrar nefndar sem kjörin var á fundinum er að setja saman lista yfir verklegar framkvæmdir sem taldar eru nauðsynlegar í hverfinu, en formaður framkvæmdaráðs hefur óskað eftir slíkum lista. Fundarmenn komu með margar tillögur að framkvæmdum, en þeirra á meðal má nefna að setja upp hringtorg við Bugðusíðu/Borgarbraut til að létta á umferð vegna tilkomu stúdentagarða og eins til að auðvelda umferð til og frá hverfinu. Þá lögðu fundarmenn til að lokið yrði við framkvæmdir við Síðubraut, hraðahindranir yrðu settar upp í Rima- og Reykjasíðuhring, spegill yrði settur upp þar sem komið er upp úr Arnarsíðu, eða breyta gatnamótunum í líkingu við litla torgið nyrst við Helgamagrastræti/Brekkugötu.
Þá vilja íbúar að reynt verið að finna leiðir til að hægja á umferð niður Teigasíðu og eins þarf að greiða fyrir umferð gangandi vegfarenda sem koma úr Tungusíðu og Stapasíðu. Þeir vilja líka að sett verði önnur gangbraut yfir Bugðusíðu við Ekrusíðu auk þess sem bæta þarf lýsingu og merkingar við gangbrautir í hverfinu. Bent var á að strætisvagnastoppistöð við Miðsíðu væri hættulega staðsett vegna þess hve útsýni annarra bílstjóra er takmarkað þegar vagninn stöðvar.
Ný stjórn var kjörin á fundinum en í henni eiga sæti Guðbjög Ingimundardóttir, Aðalheiður Bragadóttir, Ágústa Ólafsdóttir, Geirþrúður Gunnhildardóttir, Grímur Laxdal og Ingimar Eydal.
Ekki er búið að skipa formann og ritara nefndarinnar en það verður væntanlega gert á fyrsta fundi nýrrar nefndar.