Hvað er Eyfirðingur með öllu?

Eins og frægt er orðið þá eru Eyfirðingar sér á báti þegar kemur að pylsum og pylsuáti. Nú þegar styttist í hátíðina "Ein með öllu og allt undir" á Akureyri, hafa pylsusalarnir sem reka pylsuvagninn við Sundlaug Akureyrar, séð ástæðu til að senda frá sér fréttatilkynningu.

Þeir félagar, Arnar Þór Þorsteinsson og Guðmundur Ómarsson, vilja benda á ein með öllu og "Ein með öllu" sé ekki endilega það sama. "Við bjóðum nefnilega upp á hinn margrómaða Eyfirðing, sem vakið hefur mikla athygli. Eyfirðingur er pylsa með öllu og rauðkáli og þessi réttur hefur vakið sérstaka athygli ferðamanna, sem ekki eru vanir þessari samsetningu. "Hins vegar þekkja heimamenn þennan sið frá árum áður og kunna vel það að meta að hægt sé að fá Eyfirðing aftur, því allir séu sammála um að rauðkál sé punkturinn yfir i-ið þegar kemur að því að fá sér eina með öllu."

Eina pylsu eða pulsu

Nú þegar fjöldinn allur af fólki stefnir norður á hátíðina "Ein með öllu og allt undir" vilja pylsusalarnir við Sundlaugina benda bæjarbúum og gestum á að líta við og fá sér Eyfirðing, sem sé svo sannarlega ein með öllu. Þá skipti heldur ekki máli hvort talað sé um pylsu eða pulsu. "Í Eyjafirði hefur sá siður verið svo lengi sem elstu menn muna að allt sé haft undir, þ.e. að allt meðlæti er sett í brauðið undir pylsuna. En ekki hefur það síður verið vörumerki Eyfirðinga að; ein með öllu, sé líka með kokteilsósu, enda bragðgóð sósa þar á ferð og smellpassar við réttinn. Svo er það þessi skemmtilegi gamli siður að bæta við rauðkáli."

Nýjast