Húseignin að Þingvallastræti 23 á Akureyri til sölu

Húseignin Þingvallastræti 23 á Akureyri hefur verið auglýst til sölu. Um er að ræða gamla Iðnskólann á Akureyri, ásamt tilheyrandi leigulóðarréttindum. Húsið er í góðu ásigkomulagi og hefur verið nýtt af Háskólanum á Akureyri sem skrifstofu- og kennlushúsnæði. Brunabótamat allrar eignarinnar er rúmar 430 milljónir króna og fasteignamat er rúmar 147 milljónir króna.  

Húsnæðið er í eigu ríkisins og Akureyrarbæjar en hvor aðili á helmingshlut. Ólafur Búi Gunnlaugsson forstöðumaður fasteigna og rekstrar hjá Háskólanum á Akureyri, segir að aðilar hafi sýnt húsinu áhuga en hann veit hins vegar ekki hvort það leiði til þess að fram komi kauptilboð. Heildarflatarmál hússins er talið vera 2.224 fermetrar. Kauptilboð í húsið þurfa að berast Ríkiskaupum fyrir kl. 10 þann 10. ágúst nk.

Nýbyggingin við Háskólann á Akureyri verður formlega vígð laugardaginn 28. ágúst nk. við hátíðlega athöfn á Sólborg. Starfsemi skólans, sem verið hefur í húsnæðinu við Þingvallastræti, mun flytjast að Sólborg.

Nýjast