Hulda Ósk framlengir við Þór/KA

Hulda Ósk Jónsdóttir og Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður Þórs/KA, við undirritun samningsins. Mynd…
Hulda Ósk Jónsdóttir og Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður Þórs/KA, við undirritun samningsins. Mynd: thorka.is

Hulda Ósk Jónsdóttir hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Þór/KA. Greint er frá þessu á vef félagsins.

Hulda Ósk Jónsdóttir hélt utan til Bandaríkjanna síðastliðið sumar þar sem hún stundar nú mastersnám við hinn virta Notre Dame-háskóla í Indiana – og spilar þar fótbolta með liði skólans. Samningur Huldu Óskar við Þór/KA rann út núna um áramótin, en hún hefur nú ákveðið að vera áfram hjá félaginu og hefur skrifað undir nýjan samning, 1+1 ár eins og það er kallað.

Hulda Ósk hóf ferilinn með Völsungi, fór þaðan í KR og svo í Þór/KA þar sem hún hefur spilað frá 2016. Komandi tímabil verður því hennar sjöunda með Þór/KA. Hún á að baki 114 leiki í efstu deild (17 mörk) með Þór/KA og KR, en samtals 207 meistaraflokksleiki (41 mark) með þessum þremur félögum í deild, bikar, meistarakeppni, deildabikar og Evrópukeppni. Af þessum 207 leikjum eru 113 fyrir Þór/KA.

Miklar kröfur og mikill lærdómur í Notre Dame

Segja má að Hulda Ósk sé hreinræktaður sóknarmaður, hefur spilað í framlínunni, mest á öðrum hvorum kantinum með Þór/KA. En eftir að hún fór vestur um haf hefur hún fengið að kynnast fleiri stöðum á vellinum.

Hulda Ósk lætur vel af dvölinni vestra og segir hana hafa verið krefjandi: „Notre Dame er virkilega krefjandi staður og mikið ætlast til af þér námslega og fótboltalega séð. Ótrúlegar aðstæður með öllu sem þú þarft til þess að bæta þig með frábæru teymi þjálfara sem hugsa út í allt. Ég hef lært ótrúlega mikið og hlakka til að notfæra mér þessa reynslu í framtíðinni,“ segir Hulda Ósk um dvölina vestra á heimasíðu Þórs/KA

 


Athugasemdir

Nýjast