Hugrekki og ábyrgð þjóðar!

Auður Jónasdóttir skrifar

Síðustu ár hafa verið erfið, traust almennings á stjórnvöldum er lítið og margt sem hefði þurft að fara betur. Ábyrgð sem einstaklingar áttu að bera, meðal annars fyrir ofurlaunin, var fljót að fjúka út í veður og vind. Fjölmiðlar hafa sagt hverja hamfarasöguna á fætur annarri síðustu tvö ár og þolmörk einstaklinga eru orðin verulega þanin, mörgum er jafnvel ofvaxin tilhugsunin um að opna gluggapóstinn sinn um mánaðamót. Í svona aðstæðum getur verið erfitt að hugsa til framtíðar, en einmitt þá er mikilvægast að horfa fram á veginn.

Núna er tækifæri til að endurskoða gildin og skoða hvað megi betur fara í stjórnskipulagi okkar. Við sem þjóð þurfum að vera hugrökk og þora að hugsa um hvernig hlutirnir geti orðið sem bestir. Í kosningunum 27. nóvember næstkomandi er okkur falin sú ábyrgð að velja einstaklinga til að endurskoða stjórnarskránna, tökum það hlutverk alvarlega og nýtum okkur kosningaréttinn.

Hvernig getur samfélagið okkar orðið sem best? Besti mælikvarðinn á hvernig samfélag við viljum eru væntingar okkar um velferð barnanna okkar í framtíðinni. Við þurfum að huga að því hvernig við kennum þeim að vera ábyrg, hugrökk og bjartsýn. Hvernig gerum við það? Með því að setja gott fordæmi. Verum hugrökk og bjartsýn, sýnum að við viljum axla ábyrgð á samfélaginu okkar og mætum á kjörstað 27. nóvember.

Baráttukveðjur frá Akureyri.

Höfundur er frambjóðandi til stjórnlagaþings nr. 8012.

Nýjast