Hugmyndir um sjávardýragarð á Akureyri kynntar í bæjarráði
Hreiðar Þór sagði í samtali við Vikudag eftir Atvinnu- og nýsköpunarhelgina, að í Eyjafirði og á Norðurlandi sé mjög merkilegt hafsvæði, sem Akureyringar og fleiri geri sér ekki alveg grein fyrir. "Menn eru svo landrænir hérna en ég hef áhuga á því að beina sjónum manna að hafinu og þess vegna hef ég komið fram með þessa hugmynd um heim norðurhafa. Við erum að tala um sjávardýragarð með áherslu á það lífríki sem er hér nálægt. Það er hægt að ná í mjög áhugaverðar lífverur á þessu svæði en með þessu yrðu einnig aðrar lífverur. Þetta myndi byggja á tvennu, þ.e. skemmtun fyrir heimamenn og sem aðdráttarafl fyrir ferðafólk. Við erum að hugsa þetta í svo stórum skala að þetta geti verið sjálfstætt aðdráttarafl, eins og t.d. er með skíðafólk á veturna. Þarna getur verið um að ræða aukasegul, eitthvað stórt sem á heima hér vegna sérstöðu okkar og eykur lífsánægjuna á svæðinu."
Hreiðar Þór segir að svona garður þurfi 100-200 þúsund ferðamenn á ári til að geta borgað sig. Heppileg staðsetning sé nálægt Pollinum, nálægt miðbænum, á áberandi stað nálægt hringiðu mannlífs, t.d á Oddeyrartanga. Þar er töluvert af auðu svæði og þangað koma skemmtiferðaskipin með alla sína farþega. Hann segir að svona garður þurfi 4-6 þúsund fermetra rými. Í kynningu á verkefninu á Atvinnu- og nýsköpunarhelginni kom fram að byggingarkostnaður gæti verið á bilinu 1-3 milljarðar króna. Í bókun bæjarráðs frá fundinum í morgun, kemur fram að bæjarstjóra hafi verið falið að vinna áfram að málinu.