Nokkrum stórum framkvæmdum í byggingaiðnaði er nú lokið, þar má nefna að um liðna helgi voru tvö hús tekin í notkun, nýbygging Háskólans á Akureyri og Menningarhúsið Hof, þá er framkvæmdum einnig lokið við nýbyggingu Verkmenntaskólans á Akureyri sem og við fimleikahús við Giljaskóla.
„Það eru engin stór verkefni af þessu tagi í gangi núna eða föst í hendi, en hins vegar eru margar hugmyndir í gangi sem síðar kemur í ljós hvort verði að veruleika," segir Heimir. Meðal verkefna sem gætu komið til á næstunni er bygging hjúkrunarheimilis á Akureyri, en styrr hefur staðið um staðsetningu þess og segir Heimir að framkvæmdir við það muni aldrei hefjast fyrr en á næsta ári. Þá nefnir hann að nýlega hafi gamli Iðnskólinn við Þingvallastræti verið seldur og þó ekki hafi verið gefið upp um hvaða hlutverki hann muni þjóna megi leiða að því líkum að þar verði sett upp gistirými sem þá myndi kalla á framkvæmdir við breytingar innandyra.
Heimir nefnir einnig að til hafi staðið að hefjast handa við að gera Hótel Akureyri við Hafnarstræti upp og vonar að það komi til framkvæmda. Þá hafi menn rætt um nauðsyn þess að stækka flugstöðina á Akureyri en um pólitískt mál væri að ræða og ekki á vísan að róa í þeim efnum.
„Það eru alls konar hugmyndir í gangi, en óvissan er enn til staðar. Verktakar bíða margir átekta, enda sjá margir þeirra ekki til lands gagnvart sínum bönkum. Hins vegar eru líka verktakar sem hafa farið af stað með verkefni þrátt fyrir þá óvissu sem ríkir," segir Heimir og nefnir að Hyrna sé nú að byggja 5 fjögurra íbúða hús í Naustahverfi og SS-Byggir fjölbýlishús í Glerárhverfi. Hann segir einnig að mikil og góð viðbrögð hafi verið við verkefninu Allir vinna og greinilegt að bæði húseigendur og fyrirtæki hafi hug á að nýta sér endurgreiðslu á virðisaukaskatti og skattaafslátt, hefji menn endurbætur eða breytingar á húsnæði.