Horfir til betri vegar hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands

Forsvarsmenn Starfsendurhæfingar Norðurlands (SE) funda á mánudag með forsvarsmönnum menntamálaráðuneytisins vegna slæmrar fjárhagsstöðu. Eins og fram hefur komið stefnir í að starfsemin leggist af verði ekkert að gert. Geirlaug Björnsdóttir, framkvæmdastjóri SE, segist vera bjartstýn fyrir fundinn með forsvarsmönnum menntamálaráðuneytisins og að á honum verði framtíð fyrirtækisins vonandi tryggð. Ástæðu bjartsýninnar segir hún vera jákvæðan tón frá ráðuneytinu. „Eftir að málið fór í fjölmiðla má segja að hjólin hafi farið að snúast og menn fóru að sýna máli okkar áhuga," sagði Geirlaug en hún hafði áður talað um í fjölmiðlum að menntamálaráðuneytið sýndi málum fyrirtækisins ekki nægan áhuga. Starfsendurhæfing Norðurlands hófst sem tilraunaverkefni á Húsavík árið 2003 en svo var formlega stofnað fyrirtæki um starfsemina í febrúar 2006 á Akureyri. SE sinnir Eyjafirði og svæðinu allt austur á Þórshöfn og eru um 90 manns nú í tengslum við fyrirtækið ýmist í starfsendurhæfingu eða eftirfylgd. Geirlaug segir enn fremur langt því frá að fyrirtækið anni eftirspurn, um 50 manns séu á biðlista.

Nýjast