Hjörleifur Jónsson ráðinn skólastjóri Tónlistarskólans

Á fundi skólanefndar Akureyrarbæjar í gær var tilkynnt um ráðningu Hjörleifs Jónssonar sem skólastjóra Tónlistarskóla Akureyrar. Hjörleifur er fæddur í Reykjavík 1972 en fluttist í Mosfellssveit þar sem hann hóf ungur tónlistarnám. Hann er með meistaraprófsgráður bæði í klassískum slagverksleik, og kennslufræðum í tónlist frá Hochenschule für Musik Hanns Eisler. Hann er skólastjóri Neue Musikschule í Berlín og stofnandi og framkvæmdastjóri  Hypno leikhússins í Berlin sem sérhæfir sig í tónlistar og leiksýningum fyrir börn og unglinga og hefur tekið þátt í að þróa fjöldamörg verkefni sem hafa það að markmiði að efla tónlistaráhuga meðal barna og unglinga. Hjörleifur hefur unnið í nánu samstarfi við verkefnið Tónlist fyrir alla, og nýlega við Listahátíð í Reykjavík. Hjörleifur hefur viðtæka reynslu af tónlistarnámi, tónlistarkennslu og stjórnun, þar sem hann hefur starfað sem tónlistarkennari og námskeiðshaldari á Íslandi og í Amsterdam en ásamt þessu einnig stýrt tónlistarskóla í Berlín. Þá hefur hann komið að skipulagningu ýmissa listviðburða í Berlín, segir í fréttatilkynningu frá Akureyrarbæ.

Nýjast