En af hverju fóru þau til Danmerkur? "Við gerðum þetta eiginlega bara svona að gamni okkar, við höfðum ferðast mikið í Danmörku, okkur líkaði vel við Danina og okkur langaði gjarnan að komast í hlýrra loftslag," segir Bjarni. Hann segir Danina ekki sækja mikið í gistingu hjá þeim en þó alltaf eitthvað. Þau hafi ekki verið að markaðsetja sig neitt af ráði í Danmörku, heldur aðallega á Íslandi.
Bjarni segir Íslendinga vera afskaplega góða gesti, en það sé erfitt að hafa Íslendingana með Þjóðverjum og Dönum. "Íslendingarnir eru náttúrulega tveimur tímum á eftir, bæði innbyggða klukkan og venjulega klukkan, þeir fara tveimur tímum seinna á fætur og tveimur tímum seinna í rúmið og þetta fer ekki alltaf vel saman". Bjarni segir að þau hjónin finni fyrir kreppuástandinu sem er búið að vera síðastliðna mánuði og það sé heldur minna pantað núna í sumar en fyrri ár. "Það virtist hægja á þegar gengið féll og það eru mörg íslensk gistiheimili í Danmörku og ég reikna með að öll finni eitthvað fyrir því."
Bjarni segir fólk gista meira hjá vinum og ættingjum nú þegar hart er í ári og fólk reyni eðlilega að spara. Það sé mikið af Íslendingum í Danmörku og mjög algengt að fólk hafi hús að vernda og það sé einfaldlega aðhald í gangi. Hann reiknar samt með að það verði fullt hjá þeim í sumar og þau hafa líka þann möguleika að taka inn gesti frá öðrum þjóðum.
Bjarni rak bílaverkstæði á Akureyri áður en þau fluttu út, hann segir þau hjónin ekki vera á heimleið á næstunni. "Það er engin heimþrá í okkur, það munar líka miklu að öll börnin okkar búa hér úti og barnabörn og það líkar bara öllum vel. En það er auðvitað alltaf gott að koma heim til Íslands," sagði Bjarni að lokum.