Hjóla 50 km til að styðja við uppbyggingu á tartan hlaupabraut

Yfirliðið - eitt af fjórum liðum sem tekur þátt í Langanesþrautinni. Mnd/aðsend
Yfirliðið - eitt af fjórum liðum sem tekur þátt í Langanesþrautinni. Mnd/aðsend

Ungmennafélag Langnesinga stefnir nú í stórhuga framkvæmdir á íþróttasvæðinu á Þórshöfn í samstarfi við sveitarfélagið Langanesbyggð. Á staðnum er virkt íþróttastarf en góða frjálsíþróttaaðstöðu hafa mörg börn og ungmenni sótt lengra til.

Nú á föstudaginn ætlar öflugur hópur af hlaupa og hjólagörpum að hjóla frá Fonti til Þórshafnar í Langanesþrautinni, alls 50 km og safna áheitum til að styðja við uppbyggingu á tartan hlaupabraut. Nú þegar eru hafnar framkvæmdir við kastatrennu fyrir spjótkast og einnig verða í sumar kláraðir hringir fyrir kúluvarp og kringlukast.

Gréta Bergrún

„Við lítum á þessa uppbyggingu sem ákveðna byggðaaðgerð, samfélagið okkar er ekki stórt en það er gott, næg atvinna og skemmtilegt mannlíf. Íþróttastarf barna er mikilvægur þáttur í búsetu á staðnum auk þess að vera góð forvörn, og Ungmennafélagið ætlar sér að efla það með öllum mögulegum leiðum,“ segir Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, stjórnarmaður í UMFL og skipuleggjandi Langanesþrautarinnar.

 

Næsta sumar verður síðan ráðist í að gera 100 m hlaupabraut með fjórum brautum, lögð með tartan og langastökksgryfu. Til framtíðar er draumurinn að klára hringinn í kring um völlinn en ákveðið var að áfangaskipta verkinu til að byrja með.

Ungmennafélagið hefur eyrnamerkt alla dósasöfnun til þriggja ára í verkefnið og ýmis velunnarar lagt því lið með öðrum hætti.

UMFI

 

Áheitasöfnunin núna er einn þáttur í þessu og áhersla á að margt smátt gerir eitt stórt í betra samfélagi. Fyrir þá sem vilja styrkja verkefnið eru reikningsupplýsingar: kt. 570795-2609, reikn. 0133-15-000639


Athugasemdir

Nýjast