Svo gæti farið að Hilmar Sigurjónsson blakmaðurinn sterki frá KA yfirgefi félagið í haust og leiki með Stjörnunni næsta tímabil. Hilmar var lykilmaður hjá KA sem vann þrefalt í vor og ljóst að missirinn yrði mikill fyrir norðanmenn fari svo Hilmar yfirgefi félagið. „Ég er að skoða mín mál núna. Ég er að fara í nám í haust og sótti bæði um í HÍ og HA og á eftir að ákveða hvað ég geri. Ég reikna frekar með að fara suður,” segir Hilmar. Hann segir aðeins eitt lið koma til greina flytji hann búferlum suður. „Það er alveg klárt mál að það er Stjarnan. Það er vel spilandi lið sem er hvað líkast KA liðinu.”
Eins og greint hefur verið frá lenti Hilmar í slæmu bílslysi í vor þar sem hann brotnaði illa á hægri fæti. Batinn hefur tekið lengri tímann en búist var við í fyrstu en vegna sýkingar þurfti Hilmar að fara í aðra aðgerð á dögunum. „Ég fékk títaníum rör í löppina eftir aðgerðina í vor og fékk sýkingu útfrá því. Ég fór í aðgerð fyrir um tveimur vikum síðan. Ég átti von á því að á þessum tíma gæti ég verið byrjaður í ræktinni en fyrst þetta kom upp á að þá reikna ég ekki með að geta byrjað að æfa fyrr en eftir nokkra mánuði og það gæti farið svo að ég næði bara restinni af Íslandsmótinu í vetur,” segir Hilmar Sigurjónsson.