"Það er búinn að vera mikill gangur undanfarið og á mörgum kúabúum hérna í Eyjafjarðarsveit eru menn að verða búnir að slá fyrsta slátt og koma flestu í plast," segir Sigurgeir. Hann segir mikla og góða sprettu hafa verið í sumar og reiknar með að í byrjun júlí þurfi menn að fara að byrja að slá í annað sinn.
Sigurgeir segir að bændur finni vel fyrir efnahagskreppunni sem æðir um heiminn í dag og t.d. hafi áburður hækkað um meira en helming. "Ég held að áburðurinn hafi hækkað um allt að 70% frá því í fyrra, og svo hafa bæði kjarnafóður og olía hækkað, þannig að heyið er orðið ansi mikið dýrara en það hefur verið, ef maður fer að horfa á þann hlutann," segir Sigurgeir.
Guðbergur Egill Eyjólfsson bóndi í Hléskógum er ávallt jákvæður og hann er sáttur með sumarið hingað til. "Það heyjast fínt, það er fínasta uppskera og þetta gengur bara eins og best verður á kosið," segir Guðbergur. Hann segist ekki vera búinn með fyrsta slátt en er þó kominn langt á leið. Guðbergur segir efnahagskreppuna gera bændum erfiðara fyrir, hlutirnir hafi snarhækkað og það muni miklu á árinu í ár og í fyrra. "Áburðurinn er meira en helmingi dýrari og til dæmis keypti ég áburð í fyrra fyrir um 800 þúsund krónur en núna kostar áburðurinn mig eina og hálfa milljón og ekki hef ég stækkað landið," segir Guðbergur.