„Á svæðinu hér í kringum mig byrjuðu flestir kúabændur snemma að slá og höfðu þá lokið fyrri slætti í lok júní, heyskapur gekk vel og heyin voru góð, þannig að þeir sem þannig er ástatt um eru í góðum málum," segir Sigurgeir Hreinsson bóndi á Hríshóli í Eyjafjarðarsveit og formaður stjórnar Búnaðarsambands Eyjafjarðar.
Um mánaðamótin júní júlí skipti svo yfir og fór að rigna ótæpilega og setti það strik í reikninginn hjá þeim bændum sem ekki voru langt komnir með heyskap og jafnvel rétt að hefja hann. Það á m.a. við um sauðfjárbændur sem beittu fé á tún sín fram á vorið og eins bændur út með firði og í sum staðar í Þingeyjarsýslu. „Þeir sem ekki náðu fyrri lotunni lentu í hálfgerðum ógöngum, óþurrkatíð gerði að verkum að víða lá heyskapur niðri í allt að hálfan mánuð sem er bagalegt," segir Sigurgeir.
Spretta hefur verið með ágætum eftir mikla vætutíð og hafa margir byrjað seinni slátt eða eru í startholum að hefja hann.