Heitasta verslunargatan á norðurslóð árið um kring

Verslunarmiðstöðin Glerártorg á Akureyri er 10 ára um þessar mundir en hún var opnuð þann 2. nóvember árið 2000. Á þessum 10 árum hafa orðið umtalsverðar breytingar á verslunarmiðstöðinni og húsnæðið m.a. verið stækkað til muna. Þar eru nú um 40 rekstraraðilar og fer fjölgandi. Nokkrir aðilar hafa verið með starfsemi á Glerártorgi frá upphafi og á meðal þeirra eru Halldór Halldórsson og Vilborg Jóhannsdóttir.  

Halldór rekur verslunina Halldór Ólafsson úrsmiður en Vilborg tískuvöruverslunina Centro. Bæði eru þau sammála um það þessi 10 ár hafi verið mjög fljót að líða. "Við settum hér upp úraverslunina sem faðir minn stofnaði fyrir tæpum 60 árum og árið 2002 keypti ég verslunina Skart og fór þá í skartgripi líka. Svo urðu frekari breytingar hér eftir stækkun Glerártorgs árið 2008 og húsið allt er mun skemmtilegra eftir stækkun." Halldór segir að reksturinn hafi gengið ágætlega á þessum 10 árum, þótt vissulega hafi verið um sveiflur að ræða á þessu árabili. "En við höfum fullan hug á að vera hér áfram."

Vilborg segist ánægð með að vera á Glerártorgi enda sé þetta heitasta verslunargata á norðurslóð allan ársins hring. "Það hefur farið ótrúlegur fjöldi gesta hérna í gegn, reksturinn í húsinu hefur vaxið og dafnað og viðskiptavinir eru ánægðir. Það var flott skref að stækka húsnæðið og gerir Akureyri enn sterkari sem verslunarbæ. Það eru ótrúlega margir sem koma langt að til sækja sér þjónustu til Akureyrar og það er því eins gott að við sem erum í verslun og þjónustu í bænum stöndum okkur," sagði Vilborg. Það er mikið um að vera á Glerártorgi þessa dagana, afmælistilboð í verslunum og auk þess ýmsar skemmtilegar uppákomur í verslunarmiðstöðinni.

Nýjast