Heimilt að veiða 200 þúsund tonn af loðnu í íslenskri lögsögu

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur í dag gefið út reglugerðir um loðnuveiðar. Samkvæmt þeim er heimilt að veiða 200 þúsund tonn af loðnu í íslenskri fiskveiðilögsögu á tímabilinu frá 23. nóvember 2010 til og með 30. apríl 2011. Heildaraflamark í loðnu byggir á ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar. Stofnunin framkvæmdi haustmælingu á loðnu á tímabilinu frá 24. september til 8. nóvember á rannsóknarskipunum Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundssyni.  

Loðnumælingarnar fóru fram fyrr og náðu yfir lengri tíma en á undanförnum árum þegar þær voru gerðar á tímabilinu frá því um miðjan nóvember og fram í desember. Þetta leiddi aftur á móti til þess að unnt var að fara miklu víðar en undanfarin ár þar sem enginn lagnaðarís var til trafala líkt og oft hefur verið í nóvember og desember. Því telur Hafrannsóknastofnunin að mælingar á stærð stofnsins nú séu að líkum marktækari en mælingar undanfarinna ára. Af þessum 200 þúsund tonnum fara um 139 þúsund tonn til íslenskra loðnuveiðiskipa sem hafa aflamark í loðnu en rúmlega 60 þúsund tonn fara til erlendra skipa samkvæmt milliríkjasamningum. Rétt er að vekja athygli á að niðurstöður haustmælinga Hafrannsóknarstofnunar gefa ekki tilefni til að ætla að veiðiheimildir vegna loðnu verði auknar á tímabilinu. Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggur áherslu á að veiðum og fullvinnslu þessa afla verði hagað með þeim hætti, að sem mestur þjóðhagslegur ábati skapist af þessari auðlind og loðnuafli nýtist sem best til manneldis. Ríkar skyldur hvíla á útgerðum loðnuskipa að koma til móts við væntingar markaðarins um loðnuhrogn og vandaða meðferð hráefnis.

Nýjast