Heildarfjöldi frjókorna á Akureyri í júlí langt undir meðallagi

Heildarfjöldi frjókorna á Akureyri í júlí (378 frjó/m3) reyndist langt undir meðallagi (772 frjó/m3). Grasfrjó voru færri en í meðalári, urðu 274 sem þó er talsvert fleiri en í fyrrasumar þegar grasfrjó reyndust í lágmarki. Frjótala grasa fór hæst í 50 þann 22. júlí. Það sem af er sumri hefur rúmlega þriðjungur grasfrjóa meðalárs mælst á Akureyri og eiginlegt hámark er enn ekki komið fram.  

Líkt og í fyrra eru því nokkrar líkur á því að ágúst verði aðalgrasmánuður sumarsins. Í ágúst mælast að jafnaði um 800 grasfrjó/m3 á Akureyri og oftar en ekki eru topparnir tveir, sá fyrri í byrjun ágúst en sá seinni um 20. ágúst. Þar ræður þó mestu hvort þurrir vindar ríkja, en vætutíð og þoka hamla dreifingu frjókorna. Þannig fylgir jafnan hafgolunni og köldum, rökum norðanáttum lítið magn frjókorna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Nýjast