Þrátt fyrir ríflega 15% meðalverðbólgu á milli ára, hefur verið spornað gegn hækkun fasteignagjalda og nemur hún vel innan við helmingi af almennum verðhækkunum í þjóðfélaginu. Fjöldi fasteigna sem lagt er á er 9.642. Fasteignamatið er óbreytt á milli ára en álagningarprósentur hafa breyst. Þannig hækkaði álagningarprósenta fasteignaskatts úr 0,28% á íbúðarhúsnæði í 0,32% og á öðru húsnæði (atvinnuhúsnæði) úr 1,55% í 1,65%. Álagningarprósenta fráveitugjalds lækkaði hins vegar úr 0,17% í 0,15%. Vatnsgjald hækkaði skv. breytingu á vísitölu. Eins og áður er tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum veittur afsláttur af fasteignaskatti. Afslátturinn er allt að 50.000 krónur og eru rétt um 1.000 heimili sem njóta hans.