Hátt í 200 börn koma fram á menningarhátíð í Hofi á sunnudag

Menningarhátíð barna fer fram í Hofi sunnudaginn 17. október nk.undir yfirskriftinni; Börn fyrir börn. Að hátíðinni koma fjölmargir aðilar sem vinna að menningarstarfi barna á Eyjafjarðarsvæðinu: Tónlistarskólinn á Akureyri, Point Dance Studio, Tónræktin, Barnakórar Akureyrarkirku, Kór Hrafnagilsskóla, Leiklistarskóli LA. Einnig verður til sýnis myndlist grunnskólabarna.  

Á hátíðinni koma fram hátt í 200 börn sem leggja stund á hinar ýmsu listgreinar, ásamt listamönnum af svæðinu og sérstökum gestum á borð við Lay Low, Eyþór Inga Gunnlaugsson, Óskar Pétursson og Jönu Maríu Guðmundsdóttur. Kynnar verða Gréta Kristín Ómarsdóttir og Gísli Björgvin Gíslason. Dagskráin hefst kl. 13.30 þar sem Einar einstaki mun sýna listir sínar og Hjalti Jónsson mun stjórna fjöldasöng leikskólabarna. Sýningin sem fram fer í Hamraborg, hefst svo kl. 14.00. Aðgangur að hátíðinni er ókeypis, en tekið verður við frjálsum framlögum og renna þau óskipt til Hetjanna, félags langveikra barna á Norðurlandi.

Nýjast