Hátíðarguðsþjónusta í tilefni vígsluafmælis Akureyrarkirkju

Um þessar mundir eru 70 ár liðin frá því að Akureyrarkirkja var vígð en formleg vígsla fór fram þann 17. nóvember árið 1940. Tímamótanna verður minnst með hátíðarguðsþjónustu á morgun sunnudag, 14. nóvermber, kl. 14.00. Þá predikar dr. Pétur Pétursson en faðir hans, séra Pétur Sigurgeirsson var lengi prestur í Akureyrarkirkju og afi hans, Sigurgeir Sigurðsson, vígði Akureyrarkirkju en hann var þá biskup Íslands.

Prestar kirkjunnar, séra Svavar Alfreð Jónsson og séra Hildur Eir Bolladóttir þjóna fyrir altari, ásamt séra Jóni A. Baldvinssynni vígslubiskupi Hólastiftis og Valgerði Valgarðsdóttur, djákna. Dr. Pétur vann vígsluræðu afa síns og ætlar m.a. að nota sama guðspjallið í sinni predikun á sunnudag. Á morgun verður jafnframt fjáröflunardagur Kvenfélags Akureyrarkirkju, sem verið hefur einn helsti bakhjarl kirkjustarfsins. Kaffi- og lukkupakkasala verður í Safnaðarheimilinu eftir messu.

Nýjast