Hægt að spara 50-100 milljónir með því taka sand úr leirunum

Guðmundur Gunnarsson, framkvæmdastjóri GV grafa á Akureyri, segir að hægt sé að spara 50-100 milljónir króna með því að nýta um 100.000 rúmmetra af sandi úr leirum Eyjafjarðarár í væntanlega lengingu Akureyrarflugvallar. Hann segir jafnframt hægt að spara um 135 þúsund lítra af díselolíu. Guðmundur gagnrýnir nefnd um óshólma Eyjafjarðarár og segir að nefndin sé hrædd og vanbúin til að að taka yfirvegaðar ákvarðanir. "Til að vera örugglega réttu megin tengir nefndin saman óshólma og dýralíf og þar af leiðandi má ekki taka neinn sand. Það er rangt að vilja ekki að skaðlausu nota sand sem náttúran sendir okkur heim á hlað og endurnýjar í sífellu, í stað þess að senda stórvirk tæki inn í dali til að sækja möl úr óendurnýjanlegum námum," segir Guðmundur. Hann segir að nefndin virðist ekki gera sér grein fyrir því að malarefni í Eyjafirði sé af skornum skammti og að á annað hundrað rúmmetrar af möl verði teknir úr óendurnýjanlegum námum og flutt á vörubílum 15 til 20 km leið að vinnusvæðinu með tilheyrandi diselmengun og kostnaði. Guðmundur segir að út frá umhverfissjónarmiðum beri yfirvöldum skylda til að bera saman tímabundin umhverfisáhrif af sandtöku úr leirunum annars vegar á móti varanlegri efnistöku úr malarnámum hins vegar. "Sögu efnisvinnslu úr leirum Eyjafjarðarár má rekja allt aftur til lagningar Akureyrarflugvallar upp úr miðri síðustu öld og síðan þá hafa verið teknir þar vel á aðra milljón rúmmetra af sandi vegna framkvæmda við flugvöllinn, vegagerð og fleira. Rannsóknir vísindamanna sýna að þessi efnistaka hefur aðeins haft tímbundin áhrif því geilar sem mynduðust fylltust fjótt aftur og áhrif á smádýralíf voru hverfandi þegar horft var til lífríkis svæðisins," segir Guðmundur Gunnarsson, framkvæmdastjóri GV grafa ehf. á Akureyri.

Arnar Árnason oddviti Eyjafjarðarsveitar sagði í Vikudegi í síðustu viku að engin gild leyfi væru til efnistöku í Eyjafjarðará. Hann sagði að í gangi væri athugun á því hver áhrif efnistöku séu á lífríki árinnar og að niðurstöðu væri að vænta fljótlega. Arnar sagði skiptar skoðanir í sveitinni um hver áhrif efnistöku séu á lífríkið og að með þessari athugun séu menn einkum að horfa til þess hver áhrif efnistökunnar eru á silungsveiði í Eyjafjarðará.

Guðmundur segir að undanfarin ár hafi verið tekinn sandur úr austanverðum leirunum, vestan við Eyjafjarðarbraut eystri, en sú vinnsla sé miklu minni en framburður árinnar og því engar líkur á að hún hafi áhrif á dýra- og fuglalíf, enda sé nú talið að mikilvægasti fæðustaður fugla sé norðan við Leirubrúna.

"Nú eru fyrirhugaðar framkvæmdir við lengingu Akureyrarflugvallar og verða vel á annað hundrað rúmmetrar af möl flutt í vallarstæðið á vörubílum úr efnisnámum í stað þess að moka upp sandi úr endurnýjanlegri námu leiranna eins og hingað til hefur tíðkast. Þessu fagnar nefnd um verndarsvæði í óshólmum Eyjafjarðarár sérstaklega, en hefði að öðrum kosti gert athugasemdir við efnistöku úr leirunum," segir Guðmundur.

Nýjast